10.07.1917
Neðri deild: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

33. mál, Hólshérað

Flm. (Skúli Thoroddsen):

Jeg þarf ekki að mæla mörg orð fyrir þessu frv. á þgskj. 33. Það er til orðið fyrir ítrekaða beiðni Hólshreppinga, og er gamall gestur og kunnugur á þingi. Það virðist allsjálfsagt, og mesta furða, að það hefir ekki verið samþ. fyr, þegar litið er til þess, að það hefir ekki orðið, sem þó var til ætlast, að aðstoðarlæknirinn á Ísafirði skyldi sitja í Bolungavík. Þrátt fyrir þetta hefir frv. áður dagað uppi. Hólshreppur, ásamt Bolungavík, er allmannmargur, um 1200 manns þegar flest er. Læknir verður ekki sóttur nema sjóleiðis, og getur það oft verið allsendis ómögulegt. Það getur kostað menn 60—70 kr. að ná einu sinni í lækni. Er því nauðsynin enn brýnni. Sem stendur kosta Hólshreppingar sjálfir lækni, og sjá allir, að það er stakasta ranglæti að láta ekki þessa menn njóta sömu hlunninda og aðra, hvað borgun til læknis snertir. Jeg mun ekki segja fleira um málið að sinni. Vona jeg, að hv. deild sje málinu velviljuð, og vil stinga upp á, að því verði vísað til allsherjarnefndar að 1. umr. lokinni.