09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

36. mál, verðhækkunartollur

Flm. (Gísli Sveinsson):

Menn mun reka minni til þess, að á aukaþinginu í vetur kom til umræðu frv. um afnám þessara laga, verðhækkunartollslaganna; það fekk ekki framgang, og var allur þorri þingmanna því mótfallinn. Jeg var andvígur því frv. af þeim ástæðum, sem jeg tók þá fram, sem sje, að með þessu væri ranglæti framið, ekki að eins gagnvart sjávarútveginum, heldur einnig og einkanlega gagnvart landbúnaðinum; gagnvart sjávarútveginum af því, að þá var eftir tollur af síld, og gagnvart landafurðum af því, að þá hafði tollurinn af þeim verið greiddur tvívegis, en af sjávarafurðum einu sinni. Nú má kalla svo, að hvorar tveggja afurðirnar hafi tvívegis komið til tollunar.

Með þessu frv. er farið fram á að afnema verðhækkunartoll á ull, en hinum afurðunum er ekki hreyft við; lögin að öðru leyti óhögguð þangað til þau falla úr gildi af sjálfu sjer, sem sje í septembermánuði í sumar. Það getur komið til álita á þessu þingi, hvort ekki beri að gera þessi lög upp, og ef til vill framlengja gildi þeirra. En á þessari vöru, ullinni, getur það ekki orkað tvímælis, að það er meiningarlaust að halda þeim tolli lengur, meira að segja að halda honum þangað til fram í september. Einmitt nú um þetta leyti koma bændur með ullina til sölu í kaupstaðina, og vitanlega draga kaupendur tollinn frá verðinu, sem þeir greiða fyrir hana. Þótt hjer sje nú ekki um mikla fjárupphæð að ræða, hvorki fyrir landssjóð nje framleiðendur, þá er það þó ein lítil leið til þess að ljetta eitthvað undir með framleiðendum þessarar vöru, því að þótt þeir sjeu ekki eða hafi ekki verið illa staddir alment fjárhagslega, þá vofir sú hætta yfir þeim nú, þegar höfð er hliðsjón af verði nauðsynja þeirra, sem þeir þurfa að afla sjer.

Jeg get ekki látið vera að geta þess í þessu sambandi, að flestum landbúnaðarmönnum kom það á óvart, hvernig farið var að við nýju samningana í vetur við Breta; menn urðu hissa á þeirri aðferð, sem beitt var gagnvart landbúnaðinum, því að þótt ekki lægi fyrir bein skipun um það í föstu formi frá þinginu, þá var þó til ætlast í þinginu, að fulltrúar yrðu sendir fyrir báðar atvinnugreinarnar, sjávarútveginn og landbúnaðinn. En í þess stað eru fulltrúar sendir að eins fyrir sjávarútveginn. Þetta má teljast vítaverð frammistaða, enda kunna menn henni illa. Jeg ber því með ánægju fram ámæli eða ávítur til stjórnarinnar fyrir þetta, eins og kjósendur mínir hafa falið mjer. Það er hrapallegt, að í fyrsta skifti, sem bóndi á sæti í stjórn landsins, skuli þetta atriði gleymast.

Það sýndi sig líka, að þessir samningar þóttu takast illa; einkum þótti landbúnaðarmönnum hart, að ekki var lagfært verð afurða þeirra, þar sem þó vitanlegt var, að mjög höfðu nauðsynjar þeirra hækkað í verði frá því, sem áður var. Það heitir svo, að betur hafi tekist um sjávarafurðirnar; þó er það nú að koma upp úr kafinu, að samningarnir hafa ekki heldur tekist vel að þessu leyti. En að því verður væntanlega tækifæri til að víkja síðar.

Upphæð ullartollsins nam 1916, 8461 kr. Það er ekki mikil upphæð fyrir hvorugan aðilja, landssjóð og framleiðendur. En það er þó ekki að ófyrirsynju, að farið er fram á að ljetta að þessu leyti undir með framleiðendunum. Ullarframleiðendur hafa nú þegar tvívegis lagt þá vöru til tolls, og svo gæti farið, af því að lögunum er ætlað að ganga úr gildi í septembermánuði, en eigi fyr, að þessi vara kæmi oftar til tolls en sjávarafurðir. Jeg vona því, að menn sjái nauðsyn málsins, og að frv. nái fram að ganga, helst nefndarlaust, með því að kauptíðarinnar vegna verður að hraða málinu sem mest.