09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

36. mál, verðhækkunartollur

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) skildi svo vilja síðasta þings, að ætlast væri til, að erindrekar væru sendir utan fyrir beggja hönd, sjávarútvegs- og landbúnaðarmanna. Þessi skilningur er vitanlega alveg rjettur. En hann skaut því að mjer, að mjer mundi hafa gleymst þessi vilji þingsins. Ef hv. þm. vill spyrja sendimennina, í hverju skyni þeir hafi verið ráðnir til fararinnar, þá efast jeg ekki um, að þeir munu svara, að þeir hafi átt að reyna að ná sem hagfeldustum samningum um allar venjulegar útfluttar vörur, og þar með játa, að þeir hafi einnig verið fulltrúar landbúnaðarins. En jeg skal einnig bæta því við, að stjórnarráðið leitaði til landsbúnaðarfjelagsins um að benda á mann, sem það teldi hafa sjerstaka þekkingu á landbúnaðarmálum, og sá maður var sendur, sem fjelagið mælti með.

Mjer skildist einnig á sama hv. þm. (G. Sv.), að hann teldi ekkert unnið fyrir landbúnaðinn við framhaldssamningana; þar hefir hv. þm. yfirsjest. T. d. var kjötverð og gæruverð hækkað á svipaðan hátt og sjávarafurðir.

Jeg þarf svo ekki að svara fleiru, og hefi að eins tekið þetta fram til leiðrjettingar. En persónulegum hnútum í minn garð svara jeg ekki, læt mjer nægja að vísa þeim heim til sinna föðurhúsa.