09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2518)

36. mál, verðhækkunartollur

Flm. (Gísli Sveinsson):

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hefir svarað hv. þm. V.- Ísf.

(M. Ó.), að því leyti sem tekur til ullartollsins. Eins og hann tók fram eru ekki líkur til þess, að sá tollur komi í landssjóð, eða þótt eitthvað kynni að verða flutt út af ull fyrir þann tíma, er lögin ganga úr gildi, þá getur ekki verið um stóra upphæð að ræða fyrir landssjóð, en þó munar þetta í rauninni nokkru fyrir gjaldendur, þótt landssjóð dragi það lítið; en sjerstaklega er þó á það að líta, að hættast er við, að hagurinn lendi í höndum spekúlanta, en flestir munu þó játa hann betur kominn í höndum búenda.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) virtist eftir vanda standa upp til þess að þjóna sinni ímynduðu köllun; það má aldrei minnast svo á landbúnaðinn, að hann standi ekki upp og taki að halda uppi svörum fyrir sjávarútveginn. Með þessu frv. er ekki á nokkurn hátt lagst á sjávarútveginn, heldur er hjer að eins um lítilfjörlega ívilnun að ræða fyrir hina atvinnugreinina, landbúnaðinn.

Jeg skal ekki fara út í neinn samanburð um þessar atvinnugreinar, sjávarútveginn og landbúnaðinn; þær eiga báðar við ramman reip að draga nú. Jeg skal að eins geta þess, að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fór ekki með rjett mál, er hann talaði um gjald til kaupafólks fyrrum í landaurum. Greiðslan fór aldrei fram í ám, loðnum og lembdum, af þeirri eðlilegu ástæðu, að greiðslan fór jafnan fram að haustlagi.

Það hefir að eins verið borgað kaup í ám eða fje að haustlagi, en aldrei í fardögum. Þótt hv. þm. vitni í það, að kaup hafi verið borgað í smjöri, þá er það ekki hægt nú, því að smjörframleiðslan hjá bændum yfirleitt er ekki meiri en svo, að varla nægir til heimilisþarfa. Það er öllum vitanlegt, og því þýðingarlaust að rekast í því, að sjávarútveginum hefir langmest fleygt fram á síðustu árum. Hv. þm. taldi, að sjávarútvegurinn hefði orðið ver úti við bresku samningana en landbúnaðurinn, og er það varla rjett, ef á það er litið „absolut“, en það má með sanni segja, að bæði landbúnaður og sjávarútvegur hafi orðið illa úti „relativt“.

Orð hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) gefa mjer eiginlega ekki tilefni til athugasemda, því að varnir hans fyrir athæfi stjórnarinnar voru vætkisverðar. Jeg tel ekki, að umboðssali hjeðan úr Reykjavík sje hæfur umboðsmaður landbúnaðarins, og það þótt stjórnin sendi hann með skilaboð sín. Það mætti þá segja, að það væri alveg sama, hvaða maður væri sendur með skilaboð stjórnarinnar. Og það er víst, að þessi sendinefnd hefir ekki verið kjörin í samræmi við vilja þingsins í vetur, því að hjer hallast greinilega á, þar sem 2 sendimannanna eru sjávarútvegsmenn, en sá þriðji er hvorki framleiðandi til lands nje sjávar. (Atvinnumálaráðherra: Hann þekkir vel framleiðsluna). Það gerum við allir að meira eða minna leyti, en það er ekki hægt að telja mann hæfan umboðsmann landbúnaðarins, nema hann sje úr flokki þeirra, er þá atvinnu stunda, eða þá kosinn eða tilnefndur umboðsmaður eða fulltrúi þeirra. Þessi sendimaður hefir að vísu einhvern tíma verið fjármaður í sveit, og gefið út á prent eftir sig eitthvað um sauðfjárhirðingu. Hæstv. ráðh. (S. J.) gat ekki borið á móti því, að nefndinni tókst ekki að fá hækkun á ullarverðinu, og geta bændur hæglega kent því um, að þeir áttu engan talsmann í sendinefndinni. Kjöt hefir að vísu hækkað frá því sem var í gömlu samningunum, en ekki frá því sem það seldist í haust. En annars kemur það kynlega fyrir eyru, að hæstv. atvinnumálaráðherra skuli taka það sem persónulega árás á sig, er menn finna gætilega að gerðum hans sem ráðherra, eða allrar stjórnarinnar, í fyrsta sinn, sem líklega verður ekki í síðasta sinn, og vísar aðfinslunum heim til föðurhúsa sinna! Og einkennilegt er það, að hann skuli svara slíkum aðfinslum með óviðurkvæmilegum og ósæmilegum orðum. Jeg býst við, að hann þurfi ekki að nota samskonar orð eftirleiðis, því að honum veitir líklega ekki af að bera eitthvað veigameira til brunns.