09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

36. mál, verðhækkunartollur

Magnús Pjetursson:

Jeg hefi ástæðu til að þakka flutnm. þessa frv., og vonast til, að það nái fram að ganga. Úr því að talað er um verðhækkunartollinn er rjett að minna menn á, að grundvöllurinn undir honum var sá, að framleiðendur fengju mun meira fyrir vöru sína en framleiðslan kostaði, og var hið gjaldfrjálsa verð varanna miðað við, að svo mikið og ekki meira kostaði að framleiða vöruna, en tollurinn lagður á það eitt, sem væri hreinn ágóði, og þess vegna hjet hann verðhækkunartollur, en ekki útflutningstollur, sem annars hefði verið.

Það kemur því ekki til mála að framlengja verðhækkunartollinn á þessum sama grundvelli, því að mjer er víst óhætt að segja, að eftir markaðsútliti munu engar íslenskar afurðir verða seldar hærra verði en svo, að nemi framleiðslukostnaði einum. Hreinn ágóði verður því enginn til, og þannig enginn grundvöllur til undir verðhækkunartoll. Hann er því sjálffallinn. Enda er jeg sammála þeim hv. þingmönnum, sem hafa tekið það fram, að Alþingi 1915 hafi skuldbundið sig til að láta toll þennan ekki standa lengur en til hausts. Annað var því ekki sæmilegt.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, um að framleiðslukostnaður landbúnaðarins hafi lítið aukist, því að landbændur gætu enn greitt kaupafólki sínu eftir gamla verðlaginu, þá vil jeg geta þess að það er, að mínu áliti, algerlega rangt. Það verðlag á kaupi, sem hann gat um hefi jeg aldrei heyrt getið um, og er auðvitað alveg rangt. Eftir því, sem kunnugir menn hafa sagt mjer, var gamla verðlagið þannig, að fyrir fyrstu vikuna var goldin kind að haustlagi, veturgömul vættarkind, fyrir næstu viku 2 fjórðungar smjörs, þriðju vikuna 2 fjórðungar mör eða tólg. Þetta er nokkuð annað en ær með lambi, sem hann nefndi. Jeg stakk upp á við bændur, hvort ekki væri ráðlegt að taka upp þetta gamla verðlag nú, en því var svarað hiklaust, að kaupafólk taki það ekki í mál að ráða sig upp á þau kjör. Frá þessu verðlagi hafa sagt mjer menn, sem hafa tekið kaup sitt eftir því, svo að jeg veit, að það er rjett.

Auðvitað er varhugavert, eins og hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) tók fram, að kippa tekjum úr landssjóði nú. En með verðhækkunartolli er ekki hægt að fá tekjur í landssjóð. Því að enginn verðhækkunartollur getur lengur átt sjer stað, eins og jeg hefi áður sagt og sannað. Það yrði bara ranglátt fálm út í loftið.

Ef menn endilega vilja eða þurfa að leggja útflutningsgjald á íslenskar afurðir, þá væri þó meira vit í að leggja toll á alt verðið jafnt. Nú er ekki hægt að finna neina átyllu fyrir gjaldfrjálsu verði.

Jeg styð það, að frumvarpið sje ekki sett í nefnd, því að brýn þörf er á að flýta málinu. Þingmenn fá líka talsverðan tíma til að athuga málið milli umræðna, og til álita gæti þá komið að setja það í nefnd við aðra umr. En á þessu stigi ætti ekki að tefja fyrir því.