09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

36. mál, verðhækkunartollur

Einar Arnórsson:

1. þm. Skagf. (M. G.) vildi neita því, að líkt væri ástatt um sumar aðrar afurðir og um ullina; hann vildi neita því að, gangi verðhækkunartollurinn úr gildi 17. sept., renni hann í raun og veru í vasa kaupmanna. Jeg held því fram, að það sje einmitt mjög líkt á komið. Nokkrir menn hafa í vetur keypt fisk lægra verði en ákveðið er í nýja breska verðlaginu. Þeir bera fyrir sig verðhækkunartollinn; þeir þurfi að borga hann. En engar líkur eru til þess, að fiskurinn verði fluttur út fyrir 17. sept. Margir kaupa fiskinn áður en hann er veiddur, semja við bátaeigendurna um kaup á öllum aflanum. Fiskur er og oft keyptur hálfverkaður. Nú er vel hugsanlegt, að margir fiskkaupmenn „spekuleri“ í því, að tollurinn verði afnuminn.

Um síldina er það alkunnugt, að útgerðarmenn selja oft afla sinn fyrirfram; einkanlega mun sú verða raunin á nú, þar sem „spekulations“-verð er nú ekkert til á síld. Áður biðu menn, í von um verðhækkun. Nú er markaðurinn ekki frjáls, og enginn býst við, að stríðinu ljetti af í haust. Af þessu leiðir, að óhjákvæmilegt er að taka tillit til þessara afurða líka, og er það hugsanleg leið, að lagður sje tollur á þessa árs afurðir að meira eða minna leyti, jafnvel þótt tollurinn falli niður eftir þann tíma.

Rjett er og, að annað er ástandið nú en 1915, þegar tollurinn var lagður á; að halda honum í sama fari og þá væri brot á loforði, sem þá var gefið. Tollurinn var bygður á því, að menn græddu meir en í venjulegu ári. Þótt verð verði nú hærra en þá, er það í raun rjettri miklu lægra vegna hækkunarinnar á framleiðslukostnaðinum, sem nú er orðinn gífurlegur.

Flutningsmaður nefndi það, að málið mætti eigi setja í nefnd, því að því yrði að hraða. Ekki þyrfti að tefja, þó að það færi til fjárhagsnefndar. Flutningsmenn eru báðir í nefndinni og geta flýtt málinu eins og þeim finst þurfa. Geta má þess, að það er leiðinlegt að vika skuli vera af þingi þegar þetta frumvarp, sem liggur svona á, kemur fram. Flutningsmenn hefðu átt að bera það fram fyr, svo að nefnd gæti athugað það og þá auðvitað öll verðhækkunartollslögin í heild sinni.

Hvort sem ofan á verður, að lögin verði látin lifa eða deyja, verður að hafa hugfast, að það verði til góðs þeim, sem ákvörðunin verður miðuð við — ef þau lifa, þá landssjóði, en ef þau verða látin deyja, þá að ágóðinn lendi á rjettum stað, hjá framleiðendum, en ekki í vasa kaupmanna.