09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

36. mál, verðhækkunartollur

Bjarni Jónsson:

Þetta er merkilegt frumvarp að einu leyti. Það verður eigi á það minst án þess að rekja, hvernig verðhækkunartollurinn sje til orðinn. 1915 heyrðust hrinur um, að bændur græddu ofmikið. Af þessum hrinum gerðust þau ókjör, að bændur ljetu hlunnfara sig hjer í þinginu. Þannig eru lögin um verðhækkunartollinn til komin, en þau eru einhver hin heimskustu lög, er jeg hefi þekt.

Tollurinn er lagður á tvær stjettir landsmanna, án þess að nokkurt gjald á öðrum stjettum komi á móti til jafnaðar. Auk þess var hann miðaður við ákveðna verðhæð, án tillits til þess, að framleiðslukostnaður gæti stigið upp í himininn. Þær hugmyndir eru kallaðar klepptækar á Reykjavíkurmáli, sem þann veg eru grundvallaðar sem þessi.

Mjer þykir vænt um, að flutningsmaður hefir lífgað úr frv. mínu frá í vetur það, sem frv. þetta tekur yfir. Það var meðal annars með tilliti til ullarinnar, að jeg bar það fram. En það er sama hvort litið er á ullina eða annað, eins og 2. þm. Árn. (E. A.) sagði; lögin er sjálfsagt að nema úr gildi. Ef sú breytingartillaga kemur fram að afnema lögin með öllu, fylgi jeg henni, Það er nauðsyn að ljetta á almenningi, enda hafa lögin verið ranglát frá upphafi.

Mig undrar, að nokkur alþm. skuli hafa einurð til að nefna endurnýjun á þessum lögum, slíkur sem grundvöllurinn er, tildrögin o. s. frv. Lögin eru og orðin alræmd. Er það undarleg dirfska af mönnum, sem annars eru ekki óhræddir við kjósendur sína; þetta er þó nýr vottur um hugprýði.

Fjármálaráðherra (B. K.) taldi sjer skylt að minna á, að ekki megi minka tekjur landssjóðs. En peningaþörf landssjóðs getur ekki rjettlætt ranglátar tekjur. Ranglátu gjöldin verður að afnema og finna rjettlát í staðinn. Jeg sagði í vetur, að ef menn vildu ekki afnema þennan toll, þá skyldu þeir finna önnur gjöld, sem leggja mætti á þær stjettir, er hjá honum komast. Þá mætti tollurinn haldast. En nú þurfa skraddarar, skóarar, kaupmenn og aðrir, sem grætt hafa, ekki að leggja eyri af mörkum. Það er engin smáupphæð, sem um er að ræða, yfir ½ miljón króna. Það er kveinað yfir minna. Kvartanir heyrast landshornanna milli út af

6—800 kr. til skálda eða einhvers fátæks listamanns.

Jeg mun koma fram með þá breytingartillögu, að lögin verði algerlega afnumin, og styð að málinu verði flýtt.