12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

36. mál, verðhækkunartollur

Pjetur Þórðarson:

Fyrst skal jeg geta þess, að jeg hefi stundað bæði landbúnað og sjávarútveg í smáum stíl. Reynsla mín er sú, að það sje enginn samjöfnuður á, hvað ullina sje dýrara að framleiða en fiskinn. En þegar um þetta frv. er að ræða, er samanburðurinn á framleiðslukostnaði landbúnaðar og sjávarútvegs ekkert aðalatriði fyrir mjer. Í mínum augum er það aðalatriðið, að hætta er á, að fje það, sem tollinum nemur, lendi hjá milliliðunum, ef tollinum verður ekki ljett. af áður en ullin verður seld. Um fiskinn er öðru máli að gegna. Það mun eigi rjett, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að fáir hefðu enn selt fisk sinn, því að nú munu flestallir smærri útgerðarmenn búnir að selja hann. Hvað sem menn segja um verðhækkunartollinn í heild sinni, geta varla verið skiftar skoðanir um, að honum beri að ljetta af ullinni. Þótt nú tollurinn haldist á sjávarafurðunum, þá kemur það niður á efnameiri mönnum, en þeir mega best við því, því að eins og jeg sagði áðan eru flestir smærri útgerðarmenn þegar búnir að selja.

Af þessum ástæðum vil jeg ekki, að brtt. á þgskj. 51 verði samþ., þótt jeg sje frv. fylgjandi.