12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

36. mál, verðhækkunartollur

Sigurður Sigurðsson:

Hv. þm. V.- Ísf. (M. Ó.) neyddi mig til að kveðja mjer hljóðs. Þegar hann var áðan að skýra fyrir hinni hv. deild, að ekkert kostaði að reka sauðfjárbú á sumum jörðum þessa lands, skaut jeg því að honum í hljóði, að þetta væri ekki satt. Jeg hefi ef til vill sagt það með öðrum orðum, en það eitt er víst, að út af þessu hljóp illur andi í hinn hv. sessunaut minn, og hreytti hann að mjer mjög ómaklegum orðum, sem jeg verð að svara.

Í fyrsta lagi er það nokkuð langt gengið að bera það fram hjer á Alþingi, að til sjeu bændur, sem eigi 6—700 fjár, er þeir ætli enga heytuggu og ef til vill ekki hús. Jeg veit ekki betur en að slíkt athæfi varði við lög, og hefði hinn hv. þm. átt að fara aðra leið með slíka ásökun. Það er líka ósatt, að bóndinn á jörð þeirri, er hann nefndi, hafi engan kostnað og ætli fje sínu ekkert hey. Það segir sig sjálft, að ómögulegt er að rækja sauðfjárbú án kostnaðar, meiri eða minni, ef vel á að vera.

Annars er það einkennilegt, að hinn hv. þm. nefnir einar 2 jarðir til sönnunar ullarframleiðslu með engum kostnaði, Herdísarvík og Setberg. Fyrst er þess að gæta, að þessar jarðir eru einhverjar bestu sauðfjárbeitarjarðir landsins, og því hreinasti barnaskapur að taka þær sem dæmi upp á kostnaðarlitla sauðfjárrækt yfirleitt. Annaðhvort hefir fljótfærni hans eða ónot valdið því, að þessi hv. þm. hentist svo á hundavaði. Hann hefði átt að fara víðar, taka dæmi, sem hefðu verið meir sanni nær, t. d. úr Múlasýslum, Þingeyjarsýslum, Dalasýslu, eða jafnvel úr sínu eigin kjördæmi, Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Annars er þetta ekki neitt stórmál. Þeir hv. þm. V. Sk. (G. Sv.) og hv. l. þm. Skagf. (M. G) hafa fært góð og gild rök fyrir frv. á þgskj. 36, og ætla jeg ekki að endurtaka ástæður þeirra, sem margir hafa þegar etið upp eftir þeim, en mun greiða atkv. með frv. af þessum sömu ástæðum.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að landbúnaðurinn þyrfti fátt af verkfærum og að þau kostuðu lítið. Jafnskýr sem hann þó er, þrátt fyrir alt, ætti hann þó að vita, að bændur þurfa fleiri verkfæri en ljái, sem hann að eins nefndi, að bændur þyrftu. Landbúnaðurinn eða bændur þurfa til þess að reka búskapinn mörg fleiri verkfæri og áhöld, sem eru dýr, svo sem sláttuvjelar, plóga, herfi, o. fl. Og þessi áhöld hafa hækkað í verði um 100—200% frá 1915, og kosta því allmikið, þótt sá kostnaður að sumu leyti jafnist ekki á við útgerðarkostnaðinn.

Þetta hefi jeg leyft mjer að taka fram að eins í þeim tilgangi að leiðrjetta auðsæjan misskilning eða villu hjá þessum háttv. þingmanni.