12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

36. mál, verðhækkunartollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg stend upp til þess að segja nokkur orð, af því að þetta mál snertir mjög fjárhag landsins, ef menn ætla sjer í alvöru að afnema alveg verðhækkunartollinn, sem þingið 1915 gekk frá. Það er vafalaust, að ef þingið þá hefði ekki ætlast til tekna af lögunum þetta ár, þá mundi það ekki hafa látið þau gilda nema til ársloka 1916. Nú er ætlun sumra að afnema tollinn að nokkru leyti, og að öllu leyti með brtt.

Þetta mál er til yfirvegunar í öllum flokkum þingsins; þess vegna verður frv. ekki talið tímabært nú. Það hefir verið fundið lögunum til foráttu, að grundvöllurinn væri hruninn, og talið ranglátt að halda honum þess vegna. En hvað sem menn nú vilja kalla þenna toll, þá kemur það alveg í sama stað niður, af því að vjer getum ekki lagt á annað en framleiðsluna í landinu yfirleitt, svo að ef þessi tollur væri feldur og nýr settur í staðinn, þá kæmi alt í sama stað niður. Vjer höfum enga iðnaðarframleiðslu nje aðra tekjustofna en þessa.

Þetta vil jeg benda á, að þótt vjer afnemum þessi lög, þá verðum vjer að útvega aðrar tekjur í staðinn, því að ella mistum vjer nálægt ½ miljón og fengjum stóran reikningshalla í fjárlögunum.

Það er alveg rjett, að það mælir fleira með því að afnema fremur þennan ullartoll, vegna þess, að ullin var ekki hækkuð í síðustu samningum við Englendinga. En ef litið er á málið yfirleitt, þá er ekki ástæða til þess að afnema hann fremur, vegna þess, að ullartollurinn er ekki nema örlítill hluti af framleiðslunni.

Jeg verð því að telja það skyldu mína að mæla á móti því, að lögin verði numin úr gildi, en breyta má nafni þeirra og „skalanum“, vegna breyttra kringumstæðna.

Þessi fáu orð vildi jeg hafa mælt út af þeirri almennu umkvörtun, að skattar væru ranglátir. Skattar verða altaf ranglátir; það er ómögulegt að gera skatta svo rjettláta, að ekki megi rífast um þá. Til þess að þeir yrðu rjettlátir þyrftu þeir að koma á alveg beint, og þá yrði að telja fram og meta tekjur manna. Og ef rjettlæti ætti að ná með því, yrði um leið að gera mennina að englum.