12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Málið er nú komið á það stig, að það er alveg útrætt, og jeg sje ekki til neins að vera að tyggja alt það upp, sem áður er komið við 1. umr. Síðan hefir málið ekki breyst, nema að því, að nefnd var sett í málið og álit hennar er komið fram.

Jeg mun því og ekki rífast við einstaka menn. Athugasemdum þeirra hefir verið svarað af oss, sem frv. erum hlyntir, bæði nú og þá.

Jeg skal að eins geta þess, að það er rangt hjá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), eins og sýnt hefir verið fram á, að óvíða sje farið að selja fiskinn. Um þetta talaði hann stór orð. En það mun vera sannanlegt, að nálega alstaðar hafa fiskimenn og hinir smærri útgerðarmenn þegar selt fisk sinn, en stórútgerðarmenn keypt hann, eins og endrarnær. Ef lögin verða afnumin, þá er ekki rjett að segja, að landssjóði eða framleiðendum verði gróði að því; það getur varla komið til greina um landssjóð og engan veginn um framleiðendur; það eru milliliðirnir einir, sem græða. Alveg eins er um ullina; tollurinn af henni getur alls ekki komið í landssjóð. Og þá er spurningin: Vilja menn endilega láta tollinn falla milliliðunum í skaut ?

En þótt ullartollurinn sje lítil upphæð, þá mundu þó flestir verða að játa, að sá tollur beri að falla til þeirra, sem best eru að honum komnir.

Rangt er það hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að ullin sje þegar seld. Jeg er hissa á því, að hann, sem sveitamaður að fornu, skuli ekki minnast þess, að ullin er flutt í kaupstað áður en ákveðið verð er á hana komið, og oft ekki seld fyr en á sumrin, en flutt út á haustin. Þess vegna verður að hraða frv., áður en endanleg sala er um garð gengin.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hefir borið blak af nefndinni út af ásökunum hv. þm.

V.- Ísf. (M. Ó.) um, að nefndin hafi borið við tímaleysi; nefndin hefir flýtt frv., af því að það verður að ganga á undan ákvörðuninni um forlög verðhækkunartollslaganna í heild, sem nú er einmitt í athugun, og það í athugun allra flokka, eftir því sem hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) tók fram. Þess vegna eru og orð hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) að ófyrirsynju. Það er skiljanlegt og margtekið fram, að þessu frv. verður að hraða, ef það á fram að ganga, en afdrifum hinna tollanna þarf alls ekki að hraða neitt sjerstaklega.

Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) hefir lýst yfir sinni skoðun um tekjuástand landsins. Jeg læt orð hans hlutlaus að þessu sinni. Þau hafa að nokkru leyti við talsverð rök að styðjast, þótt spurning geti verið um ýms atriði. En að sama brunni ber hjá honum og öðrum. Hjer er ekki í frv. verið að raska lögunum; þau haldast í gildi, að undan skildu þessu eina atriði.