31.08.1917
Efri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Kristinn Daníelssou:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 730, um lítið eitt aukinn styrk til Flensborgarskólans, og vil jeg í stuttu máli færa rök fyrir þörfinni á því.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að stjórnin hafði, eftir umsókn frá skólanefndinni, áætlað, að skólinn þyrfti 3000 kr. fjárveitingar, í viðbót við fje það, sem honum er veitt í gildandi fjárlögum. En, eins og háttv. fram. (E. P.) tók fram, tókst svo óheppilega til í háttv. Nd., að styrkurinn var lækkaður niður í 1000 kr., þrátt fyrir brýna þörf. Var sú lækkun þó að eins samþykt með 1 eða 2 atkv. meiri hluta. Vona jeg nú, að háttv. deild bæti úr þessu, þar sem jeg fer þann meðalveg, að skólanum verði bætt þessi lækkun að hálfu leyti. Í þessari dýrtíð er eðlilegt, að fjárveitingin 1915, fyrir árin 1916 og 1917, hafi ekki hrokkið til, enda kom það í ljós í árslok 1916, að tekjuhallinn á því ári var um 2660 kr. Reikningurinn fyrir þetta ár er að vísu ekki fullger, en menn vita, að tekjuhallinn á honum verður yfir 1000 kr. Tekjuhallinn á þessu fjárhagstímabili er þá orðinn 3660 kr., þrátt fyrir það, að skólanefndin neyddist til að neita kennurum skólans um lítils háttar launahækkun, sem þó var brýn nauðsyn á að þeir fengju. Skólastjórinn hefir sem sje að eins 1700 kr. árslaun og kennararnir 1400 kr. og 900 kr. laun. Lengra skal jeg ekki rekja fjárhag skólans, en að eins geta þess, að skólanefndin hefir því að eins getað klofið útgjöldin, að einstakir menn tækju á sig lánsábyrgð fyrir skólann.

Um verðleika skólans þarf jeg ekki að fjölyrða. Hann er besti og fullkomnasti alþýðuskólinn hjer á landi. Skólinn á miklum vinsældum að fagna um land alt. Að honum sækja menn úr öllum fjórðungum landsins. Myndi það því mælast illa fyrir, ef skólinn yrði lagður niður. Jeg sagði, að hann væri fullkomnasti alþýðuskóli hjer á landi. Skil jeg þá auðvitað undan Akureyrarskólann og gagnfræðadeild Mentaskólans. En hvorugur þeirra skóla er eiginlega alþýðuskóli. Akureyrarskólinu undirbýr menn jöfnum höndum undir það að ganga inn í lærdómsdeild Mentaskólans. En Flensborgarskólinn er eingöngu alþýðuskóli. Þó veitir hann nemendum sínum svo mikla mentun, að margir þeirra geta gengið undir próf í lærdómsdeild Mentaskólans, án þess að bæta miklu á sig. Mjer er þetta kunnugt, þar sem tveir synir mínir hafa gengið í Flensborgarskóla og tekið síðan próf upp í lærdómsdeild Mentaskólans, annar þeirra sem næst án nokkurs náms frá því, er hann tók burtfararpróf úr Flensborgarskóla. Jeg drep á þetta til þess að gera mönnum ljóst, hve mikla þýðingu skólinn hefir og hve mikil ástæða er til að styrkja hann.

Legg jeg svo á vald háttv. deildar, hverjum forlögum hún lætur brtt. mína sæta.