31.08.1917
Efri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að mæla með brtt. á þgskj. 709, frekar en háttv. frsm. (E. P.) hefir gert. Fjárveiting sú hefir af ógáti fallið úr frv., og mætti kenna stjórninni um það.

Jeg hefi aðallega staðið upp til þess að minnast á 3. gr. 1., dýrtíðaruppbót pósta. Jeg hafði vonað fram á síðustu stundu, að Alþingi myndi muna eftir þessum einna þörfustu starfsmönnum landsins og veita þeim dýrtíðaruppbót fyrir árið 1917, á svipaðan hátt sem þeim er hjer veitt fyrir árið 1916. Jeg veit, að ofseint er að koma með brtt. þessa efnis, þar sem þetta er síðasta umr. málsins hjer í deildinni. En frv. gengur aftur til háttv. Nd., og mætti þá reyna að koma með brtt í þessa átt þar.

Það er bráðnauðsynlegt, að eitthvað verði gert til þess að bæta kjör pósta. Þeir beiðast nú lausnar hver af öðrum, þar sem þeir geta ekki komist af með laun sín, oft og tíðum, í ferðakostnað, svo að alls ekkert verður eftir upp í atvinnuna sjálfa, sem átti að vera.

Jeg hugði, að bjargráðanefnd hefði munað eftir póstunum. Minni jeg nefndina nú á þá, í þeim tilgangi, að hún láti ekki undir höfuð leggjast að mæla með sómasamlegum launum handa þeim.