18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

36. mál, verðhækkunartollur

Guðjón Guðlaugsson:

Mjer skilst, að tilgangur frumvarps þessa sje sá, að reyna að koma í veg fyrir það, að kaupmenn og kaupfjelög landsins geti lagt á ullarframleiðendur tolla, sem þeir á síðan greiða aldrei til landssjóðsins.

Allir vita, að ull er fyrsta landbúnarvaran, sem lögð er inn í verslanirnar að vorinu, og einmitt nú eru kaupmenn um land alt að taka á móti ull. Það er því augljóst, að með því að ganga út frá verðhækkunartolli, sem er í gildi, að seljendur þurfa að greiða tollinn, en kaupmenn þurfa aldrei að greiða hann, ef þeir flytja ekki ullina út fyr en hann er numinn úr gildi.

En frv. vill koma í veg fyrir, að verslunarstjett landsins geti þetta, og má segja, að það sje rjettlátt og heiðarlegt, því að það er líklegt, að engin ull verði flutt út fyr en eftir þann tíma, er tollurinn er fallinn úr gildi.

Þetta yrði því að eins skaði fyrir seljendur og ranglátur ábati fyrir kaupmennina, ef frv. yrði felt. Um verðhækkunartollslögin er það að segja, að jeg var ekki á þingi þegar hann var samþyktur, en jeg verð að játa það, að mjer fundust þau vera allra laga sanngjörnust á sínum tíma. En nú hefir allur grundvöllurinn undir þeim raskast svo, að sjálfsagt virðist að láta þau nú sofna út af, eins og til var ætlast í upphafi, og framlengja þau ekki.

Jeg veit ekki, hvort nokkuð hefir verið hugsað fyrir, hvernig hentast muni að ná þessum tekjum, sem missast við afnám laganna, en ekki virðist eiga illa við að taka lán í þessu skyni, svo að útgjöldin flyttust á nokkur ár.

Annars virðist mjer það mikil ókurteisi við háttv. Nd., ef frv. yrði nú drepið, þegar við fyrstu umræðu. Frv. fjekk talsverðan meiri hluta í hv. Nd., og mætti því ekki minna vera en að það væri sett í nefnd hjer í þessari hv. deild, því að, hvað sem öðru líður, getur það ekki gert neinn skaða, þótt frv. yrði samþykt.