03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

36. mál, verðhækkunartollur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg ætla að eins að segja örfá orð, enda mun fara best á því, því að eftir skýrslu hv. 2. landsk. þm. (S. E.) er þetta 54. ræðan um þetta mál.

Jeg mintist lítillega á þetta mál við 1. umr. þess, og taldi mig heldur fylgjandi frv.. þó að jeg áliti það í raun og veru bæði meinlaust og gagnslaust. En þó að málið hafi horft svo við þá, þá álít jeg engu síður rjett að fella frv. núna, eða að minsta kosti er alveg ástæðulaust að vera að ræða það frekar. Aðalatriðið fyrir mjer sem fulltrúa bænda, því að þannig er mjer ljúfast að líta á mig, er það, að þeir geri sig ekki svo smáa, að vera að fylgja því fram, sem enga þýðingu hefir fyrir framleiðendurna sjálfa. Frumvarpið var borið fram í góðum tilgangi, og ef til vill hefði orðið eitthvert gagn að því, hefði það verið gert að lögum þegar í þingbyrjun, en nú er sú ástæða, sem þá var fyrir hendi, algerlega dottin úr sögunni. Og jeg get getið þess, að jeg hefi átt tal um þetta við aðalflutningsmann frumvarpsins í hv. neðri deild (G. Sv.), og var hann nákvæmlega sömu skoðunar og taldi engan hag að því, að frv. yrði samþykt, úr því að það hefði dregist svona lengi.

Jeg mun því styðja að því, að frv. verði felt, því að mjer finst það naumast sómasamlegt fyrir fulltrúa bænda að stuðla að neinu, sem virðast mætti sem bending um, að þingið vildi beita hlutdrægni við annan aðalatvinnuveg landsins.