03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Mig furðar á því, hvað hv. 2. landsk. þm.

(S. E.) er sljóskygn í jafnglöggu máli. Hv. þm. virðist ekki geta sjeð neitt misrjetti í þessu frv., sem þó liggur í augum uppi. Honum finst öðru máli að gegna um fiskinn, því að verð á honum sje þegar ákveðið. Þetta er þó eigi alveg rjett. Mikið af fiskinum er óselt enn og jeg hygg, að ekki verði tekið tillit til tollsins, er verð á honum verður ákveðið, þar sem kaupmenn búast ekki við því að geta sent hann út úr landinu fyrir 16. sept. næstkomandi.

Hv. þm. (S. E.) segir í áliti minni hlutans á þgskj. 233:

„Minni hlutinn telur rjett, að frv. verði samþykt, enda bíði landssjóður engan tekjuhalla við það, þar sem fyrirsjáanlegt er, að ull verður ekki flutt út fyrir 16. september næstk., en þá eru verðhækkunartollslögin úr gildi. Tilgangur frumvarpsins er því að eins að koma í veg fyrir, að kaupmenn og kaupfjelög taki tollinn til greina, er þau ákveða ullarverðið, svo að bændur fái minna verð fyrir ullina.

Með þessu frumvarpi er því á engan hátt hallað jafnvæginu, sem á að vera á milli atvinnuveganna“.

En í fyrri málsgreininni sjest ekkert, er hægt sje að draga þá ályktun af.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) kvaðst styðja álit minni hlutans og hugði, að það myndi verða hagur fyrir bændur, ef frv. næði fram að ganga. Jeg þóttist hafa sýnt fram á það með rökum, að hjer gæti ekki verið um neinn hagnað að ræða. Hæstv. atvinnumálaráðh. hlýtur að vera kunnugt um það, að flestir kaupmenn hafa ekki búist við að geta flutt út ull sína fyrir 16. sept. og hafa því alls ekki tekið tillit til verðhækkunartollsin.

Hæstv. ráðh. (S. J.) kvað rjett að leyfa frv. að ganga til 3. umr., með því að annað frv. um verðhækkunartoll væri á ferðinni. Mjer er ekki kunnugt um, að neitt slíkt frv. liggi fyrir þinginu. Aftur á móti liggur fyrir frv. um framlenging vörutollslaganna. Það er ástæðulaust að láta þetta frv. ganga lengra, að eins til að tefja tímann.