03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2574)

36. mál, verðhækkunartollur

Magnús Kristjánsson:

Jeg skildi ekki vel ummæli hv. 2. landsk. þm. (S. E.) um þá menn, er altaf væru á verði og þytu upp sem nöðrur, þegar um hagsmunamál annara atvinnuvega væri að ræða en þeirra, er þeir einkanlega bæru fyrir brjósti, og sæju ofsjónum yfir velgengni annara atvinnuvega og væru afbrýðissamir. Jeg þekki alls ekki þessa menn, og þætti mjer fróðlegt að heyra nöfn nokkurra þeirra. Þetta getur ekki náð til mín, og jeg veit ekki heldur til, að það geti náð til framkomu nokkurs í þessari hv. deild. Jeg veit ekki heldur til þess, að þetta geti átt við þm. í háttv. neðri deild, að minsta kosti ekki til þeirra þm„ er jeg þekki, en jeg hefi ekki haft tækifæri til að kynnast ýmsum nýjum þm., og gæti þetta því aðeins átt við þá. Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) ætti að gefa skýringu á því, við hverja hann átti. Því að öðrum kosti verða þessi ummæli skoðuð sem ómerk orð.