12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

42. mál, einkasala á mjólk

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Frv. þetta er borið fram eftir ósk kjósenda í

Rvík. Undanfarin ár hefir verið ólag á mjólkursölu hjer í bænum; einkum hefir brostið á hreinlæti. Á síðastliðnum vetri kaus bæjarstjórnin þriggja manna nefnd til að íhuga mjólkursölumálið og koma með tillögur. Nefndin hafði málið lengi til meðferðar og kom síðan fram með það frv., er jeg nú flyt hjer í deildinni. Frv. er að kalla eins og nefndin gekk frá því.

Nefndin kynti sjer útsölustaði hjer í bænum, og kom þá í ljós, að mörgum þeirra er mjög ábótavant. Heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi hafa oft orðið að áminna mjólkursala, en það hefir ekki komið að tilætluðum notum. Út af öllu þessu hefir mönnum virst álitlegast, að bærinn tæki sjálfur mjólkursöluna í sínar hendur, eða aflaði sjer að minsta kosti heimildar til þess.

Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa hjer tvo kafla úr skýrslu nefndarinnar, sem bæjarstjórnin setti:

„Herbergið, sem mjólkin er mæld í, er óhreint og ekki loftgott, sem stafar af því, að eldhús er þar nálægt. Ekki er þar nógu bjart, og kona sú, er mjólkina mælir, óþokkalega klædd. Mjólkin mæld í lítermáli, en geymd í opnu íláti. Ýmislegt dót er í búðinni, sem ekki tilheyrir mjólkursölunni“.

Enn fremur þetta;

„Í búðinni er hálfdimt og slæmt loft. Loft og veggir illa hvíttað (sic!) með kalki. Konan, sem mjólkina mælir, er ekki klædd eins og reglugerðin ákveður. Mjólkin er mæld í lítermáli, en geymd í opnu íláti“.

Reglugerðin, sem nefnd er, er reglugerð um mjólkursölu hjer í bænum. — Auðvitað voru sumir mjólkursölustaðirnir góðir, en þeir voru sárafáir, og flestum þeirra var í mörgu mjög svo ábótavant. Algengast er, að verslað sje með ýmsa muni, sem eiga óskylt við sjálfa mjólkursöluna, vindla, tóbak o. fl. Einnig er mjólkin oft seld í glösum; menn sitja og reykja inni í söluherbergjunum. Sölustaðirnir eru svo margir, um 30, að eftirlitið verður hvorki nógu mikið nje gott, auk þess sem heimild brestur til, að hægt sje að bæta fyllilega úr.

Eitt er það og, sem mælir mjög með, að mjólkursalan sje dregin saman á fáa staði. Á mörgum sölustöðunum er ekkert gert til að kæla mjólkina; á sumrin verður hún því oft súr áður en hún er seld. Það ætti ekki að þurfa að hræðast, ef bærinn hefði söluna.

Hjer í bænum er mikill mjólkurskortur. Eftir því, sem alment er álitið meðal annara þjóða, þyrfti Reykjavíkurbær 2737500 lítra á ári í minsta lagi. En hingað mun ekki berast meira en 1480000 lítrar. Það vantar 1257500 lítra á, að nægileg mjólk flytjist til bæjarins. Má því nærri geta, að margur, sem mætti ekki vera án mjólkur, fær minna af henni en við sje unandi. Nú eru líka engin tök á að ráða því, hverjir fá mjólk og hverjir ekki. Þegar skortur er á mjólk, ættu sjúklingar, börn og gamalmenni vitanlega að ganga fyrir öðrum. Í frv. er og farið fram á heimild til þess, enda þá fyrst hægt að hafa nokkurt lag á því, hverjum mjólkin sje seld, þegar sölustaðirnir eru ekki mjög margir. Það má teljast algerlega óhæft, hve mikið af mjólk gengur nú til kaffi- og veitingahúsa, þegar svona mikill skortur er á mjólk, eins og nú er meðal þeirra, sem hvorki geta eða mega vera án hennar.

Jeg bið menn að skilja ekki orð mín svo, að allir mjólkursölustaðir eigi óskilið mál um óþrifnað og önnur brot á mjólkursölureglugerð bæjarins. Þeir sölustaðir eru til, sem uppfylla öll skilyrði; jeg þekki mörg heimili í Reykjavík, sem framleiða góða mjólk og fara mjög hreinlega með hana.

Þó mjólkursala af hálfu bæjarfjelaga sje nýmæli hjer á landi, er hún ekkert nýmæli í heiminum. Í erlendum bæjum er algengt, að bæjarstjórnin hafi mjólkursöluna á hendi, og er hvorttveggja talið, að heilbrigði hafi aukist við það og íbúunum orðið hagur að.

Að síðustu vil jeg geta þess, að hjeraðslæknirinn hjer í bænum mælir eindregið með einkasölunni.

Jeg vænti, að hv. deild taki frv. vel og láti það ganga til 2. umr., og að þessari umræðu lokinni til allsherjarnefndar.