12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

42. mál, einkasala á mjólk

Gísli Sveinsson:

Jeg skal eigi tefja tímann, en vil þó sem bæjarbúi hjer í Reykjavík, segja nokkur orð, nefndinni, sem væntanlega fær málið til meðferðar, til athugunar.

Mjer virðist, að frv. geti ekki náð fram að ganga, eins og það er, og eins og ástandið er hjer í bæ. Þm. verða að kynna sjer, hvernig ástatt er um mjólk og útvegun hennar til bæjarins.

Víst er það, að mörg mjólkurknæpan hjer er ógeðsleg. En hjer á bæði að vera til reglugerð um mjólkursölu og heilbrigðisfulltrúi, til að sjá um, að henni sje fylgt. Ef ástandið er eins slæmt og mjólkurnefndin, sem hafði þetta mál til athugunar hjá bæjarstjórn, lýsir því, þá er það eingöngu að kenna eftirlitsleysi heilbrigðisfulltrúans og heilbrigðisnefndar, og eftirgangsleysi bæjarstjórnar. Jeg sje ekki betur en að hægt væri að kippa því í lag á annan hátt en með því að lögleiða einkasölu á mjólk.

Verði einkasalan lögleidd, kemur það meðal annars, að óþörfu, niður á gömlum og góðum heimilum, sem um langan aldur hafa notið almenningshylli fyrir mjólkursölu sína. Það er eitthvað annað en að ástæða sje til að koma þessum heimilum úr sögunni. Menn ættu þvert á móti að gleðjast yfir, að þau skuli vera til.

Þá kem jeg að því, sem fyrir mjer er aðalatriðið. Jeg vil beina þeirri spurningu til hv. flm. (J. B.)., hvaða gangskör bæjarstjórnin hafi gert til að tryggja það, að bænum berist nóg mjólk? Mjer er ekki vitanlegt, að nokkuð hafi verið gert til þess. Þvert á móti. Ef þetta frv. yrði samþykt, væri jeg hræddur um, að margir myndu hætta mjólkurframleiðslu. Menn myndu ekki vilja framleiða mjólk með þeim kostum, að verða svo að fá hana alla í hendur bænum eða bæjarstjórninni. Fyrir mjer er þetta aðalatriðið: Er það trygt, að ekki dragi úr mjólkurframleiðslu handa bænum, ef einkasalan kemst á?