31.08.1917
Efri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Kristinn Daníelsson:

Jeg ætla ekki að fara út í neinar kappræður. Vil að eins benda á það, að það er ekki svo, að skólinn eigi engan tekjustofn. Öll skólaeignin er sannarlega tekjustofn, en styrkurinn úr landssjóði að eins rekstrarkostnaður skólans. Jeg skal fyrir hönd hlutaðeigenda þakka hækkunina í fjárlagafrumvarpinu úr 7000 kr. í 8500 kr., en sú hækkun er þó ekki í neinu samræmi við dýrtíðina. Enda fóru hlutaðeigendur fram á 10000 kr. styrk. Jeg verð að vera því algerlega mótfallinn, að krafist sje, að sýslufjelagið og bæjarfjelagið leggi eitthvað af mörkum til skólans. Enda skal jeg geta þess, að Gullbringusýsla á í svo mörg horn að líta, að hún gæti ekki styrkt skólann. Enda væri rjettast, að landið tæki hann alveg að sjer. Jeg hygg, að skólinn eigi sjer þá sögu, að hann eigi það skilið, og vil, til samanburðar, minna á, að landið er í þann veginn að taka að sjer annan skóla, með stofneign á líkan hátt.