12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2580)

42. mál, einkasala á mjólk

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get strax svarað hv. 2. þm. Árn. (E. A.) því, að jeg teldi ekki óviðeigandi, að í lögunum væri bæjarstjórninni heimilað að veita undanþágur einstökum mönnum til 1 árs í senn. Kunnugt er, að til eru einstöku mjólkursölustaðir, sjerstaklega heimili, er fara vel og hreinlega með mjólk sína. Mjer er ekkert kappsmál að svifta þessa staði yfirráðarjetti yfir sinni mjólk. Mjer datt ekki þetta atriði í hug, fyr en eftir að frv. var farið í prentsmiðjuna, og hv. 2. þm. Árn. (E. A ) man, að jeg drap á það við hann

(E. A.: Já, það er rjett). Jeg held, að eftir reglugerðinni hafi verið farið til hins ítrasta, og undanfarin reynsla sýnir, að eigi sje hægt að sjá svo um, að þeir, er helst þurfa, gangi fyrir mjólkinni, þótt ef til vill hefði mátt ganga ríkara eftir um hreinlæti. Reglugerðin veitir enga heimild til að hindra mjólkurveitingar kaffihúsa og sölustaða.

Jeg get játað það með hv. 2. þm. Árn. (E. A.), að ekki muni kúafjöldi aukast við það, að frv. þetta er samþykt. Það hefir víst engum dottið í hug. En jeg færði það til, að þegar mjólkurskortur væri í bænum, gæti bæjarstjórnin látið þau heimilin helst verða mjólkur aðnjótandi, er þarfnast hennar mest.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) spurði, hvort ráðstafanir hefðu verið gerðar af bæjarstjórninni til að auka mjólkina. Mjer vitanlega hefir ekkert verið gert. Honum er kunnugt, að bæjarstjórninni stóðu til boða bæði kýr og tún, en hún hafnaði; en það get jeg ekki kent mjer um, því að jeg greiddi atkv. með, að bærinn keypti bæði túnið og kýrnar. Þá var ekki mikil mjólkurframleiðsla, og hún hefði auðvitað ekki aukist, miðað við það sem þá var, þótt bærinn hefði keypt, en hún hefði þá verið meiri nú, því að, eins og kunnugt er, hefir sumt af þessum kúm verið selt burt úr bænum. Um hug mjólkurframleiðenda til þessara laga get jeg ekkert sagt. En verði veitt heimild til undanþágu, fæ jeg ekki sjeð, að þeir ættu að þurfa að vera óánægðir. Jafnvel ættu útgjöld þeirra að geta orðið minni. Aðaltilgangurinn með að fá þessi lög er að auka hreinlætið í meðferð mjólkurinnar, fá ráð á úthlutun mjólkurinnar og heimild til að fækka útsölustöðum. Nú eru þeir altof margir, og alt gengur á trjefótum. Þeir, sem hefðu þá á hendi eftir þessum lögum, yrðu þjónar bæjarins og fengju sitt ákveðna kaup. Þá gæti þeim ekki verið neitt áhugamál að selja skemda mjólk, eins og nú, er þeir kaupa mjólkina fyrir ákveðið verð og selja út. Nú er það þeirra skaði að sitja inni með skemda mjólk. En eftir lögunum kæmi það algerlega á bæjarins reikning. Held jeg því, að þessi lög væru trygging gegn því, að menn fengju skemda mjólk.

Jeg held, að jeg þurfi ekki að skýra fyrir hv. þingmönnum, hve þýðingarmikið það er fyrir hina uppvaxandi kynslóð að fá góða og holla mjólk. Hv. þingmenn eru svo vel að sjer, að þeir vita það. En mjer sást yfir eitt atriði í framsöguræðu minni, er mælir með frv., en það er fitumagnið. Það er ákaflega misjafnt á útsölustöðunum, svo misjafnt, að grunsamlegt má heita. Sumir hafa mjólk, sem er að fitumagni mikið yfir 3,25, sem hjer er heimtað, en sumir hafa jafnvel undir 2,9. Mjólkin er óholl, er hún er svona rýr. Væri þá full þörf á eftirliti með því, að betur væri gert við kýrnar. En margt bendir og á, að ólag sje á meðferð mjólkurinnar. Meðalfita í mjólk er talin 3,5— 3,6. En nú er meðaltalið hjer 3,25. Ætti því fitan ekki að fara niður fyrir þetta lágmark, ef mjólkin væri ómenguð. Vona jeg, að sú hv. nefnd, er málið fær til meðferðar, athugi þetta. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti undanþágum. Aðalatriðið er, að bærinn hafi þessa heimild, ef í nauðir rekur.

Það væri þegar bót, að útsölustöðunum væri fækkað, en hitt tel jeg jafnsjálfsagt, að bærinn hafi þessa heimild. Jeg veit, að því hefir verið skotið fram, að bærinn myndi reyna að hafa áhrif á mjólkurverðið hjá framleiðendum, ef hann öðlaðist þessa heimild. Það, sem gerðist hjer síðastliðið haust, ætti að gefa bendingu um þetta atriði. Er verðlagsnefndin ákvað hámarksverð á mjólk, kiptu framleiðendur að sjer hendinni. En mjólk vildu menn fá, og þeir fóru þá heim til framleiðenda og báðu þá að selja sjer mjólk, hvað sem hún kostaði.

Hvað mjólkurverðið snertir höfum vjer verðlagsnefnd, sem hefir alræðisvald í þeim efnum. (G. Sv.: Sú nefnd er nú bráðum úr sögunni!). Bærinn hefði því ekki meiri tök á að ráða verðinu en nú. En hann verður algerlega að eiga undir sanngirni framleiðenda. Jeg býst ekki við, að þeir fyrtist við þessi lög, því að hjer er í engu gengið á rjett þeirra, heldur gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir óhreinlæti, sem getur haft illar afleiðingar. Ef ungbörnin kynnu að mæla, þá veit jeg, að þau myndu ekki vilja stein í götu þessa frv., sem hjer liggur fyrir. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að sinni.