25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2586)

42. mál, einkasala á mjólk

Gísli Sveinsson:

Jeg stend ekki upp til þess að bera blak af nefndinni — það gera aðrir, sem henni standa nær — en það gleður mig, að hún hefir komist að sömu niðurstöðu sem jeg hafði komist og tekið fram við 1. umr.

Jeg gat þess þá, að menn, búsettir hjer í bæ, gætu ekki sætt sig við þetta frv. Það hefir verið sagt, að almenningur vildi, að þetta frv. næði fram að ganga. Jeg hefi ekki orðið var við þennan almenningsvilja. Raunar liggur áskorun hjer frammi á lestrarsal um málið, sem felur í sjer ályktun, sem gerð hefir verið á tveim fundum, þar sem örfáir greiddu atkvæði, en langflestir ljeti sig málið engu skipta. Það vita allir, að þingmálafundir hjer í Reykjavík eru einatt markleysa, því að þótt nokkrir menn rjetti upp hendurnar með máli, þá getur ekki leitt þar af nokkur ábyggileg vissa um vilja bæjarbúa. Jeg verð því að mótmæla því, að almenningur sje hlyntur frv., enda kæmi það harðast niður á almenningi, ef það næði fram að ganga.

Við 1. umr. málsins spurði jeg hv. flm. (J. B.), hvaða trygging væri gerð af bæjarstjórnarinnar hálfu til þess að hafa næga mjólk, ef þessi einkarjettur væri veittur. Hann svaraði, að fyrir því væri engin trygging; ekkert hefði verið gert, til þess að tryggja það.

Nei, hjer í deildinni eru svo margir menn kunnugir málavöxtum, sem ekki geta unað því, að gerð sje tilraun til þess, að mjólkurframleiðslan hverfi. Því að það liggur í augum uppi, að framleiðendur þurfa ekki að sætta sig við reglur fyrir framleiðslu þeirra; enginn getur þröngvað þeim til þess að framleiða mjólk, og ef þeir vilja ekki selja mjólk eftir þessum kokkabókum, þá er bærinn mjólkurlaus. Þannig er ástandið og þannig afleiðingarnar.

Jeg fyrir mitt leyti verð að telja það ábyrgðarhluta fyrir þingið að samþykkja annað eins frv. og þetta, ekki síst þegar það er játað af hv. flm. (J. B.), að það hafi verið alt annað en einkasala, sem vakti fyrir honum með flutningi frv. Enn fremur er nú komið frv. frá nefndinni, sem hann fór svo ómaklegum orðum um. Hann kveðst með frv. sínu hafa viljað tryggja þrifnað og rjettláta og jafna úthlutun mjólkurinnar. Fyrir þessu hvorutveggja gerir frv. nefndarinnar ráð.

Hann taldi bæjarstjórninni ómögulegt að tryggja þetta, nema hún fengi söluna í sínar hendur. Í frv. nefndarinnar er bæjarstjórninni heimilað að leggja háar sektir við brotum á reglum þeim, er hún setur. Ef til vill leggur hinn hv. þm. (J. B.) lítið upp úr sektum. Kann það þó að virðast skrítið, ef litið er til þess, sem bráðum kvað koma fram frá honum. Þar virðist hann fyllilega kunna að meta gildi og áhrif sektarákvæða í lögum, eða jafnvel hafa ofurtrú á háum sektum.

Jeg sje því ekki betur en að hv. þingdeildarmenn geti ósköp rólegir samþykt rökstuddu dagskrána, sem hjer liggur fyrir, og síðan gengið til að ræða næsta mál.