25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

42. mál, einkasala á mjólk

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Í sjálfu sjer er óþarft að lengja umræður um þetta mál að nokkrum mun. Jeg býst við, að það muni ganga sinn gang hjer í deildinni, hvort sem um það er rætt lengur eða skemur. Samt get jeg ekki stilt mig um að drepa lítils háttar á einstöku atriði í ræðum þeirra hv. þm., sem talað hafa í þessu máli. Mjer þótti leiðinlegt, að hv. 2. þm. Rang. (E. J) skyldi finnast, að jeg væri að drótta því að nefndarmönnum, að þá skorti vit eða vilja til að ráða heilt í þessu máli. Jeg sagði að eins, að sumir þeirra mundu ekki hafa nægan kunnugleika á málinu, og það sjá allir menn, að er alt annað en vitskortur eða viljaleysi. Upplýsingar þær, sem nefndin hefir stuðst við, hljóta að vera allar frá einni hlið málsins. Allar upplýsingar, sem fyrir liggja um rannsókn mjólkurmálsins, hefðu gengið á móti niðurstöðum nefndarinnar. Þess vegna verð jeg að álíta, að hún hafi alls ekki við þær stuðst. Af þessu leiðir, að ráðstafanir nefndarinnar verða tæplega nógu tryggilegar. Í einstökum atriðum gætu þær vafalaust orðið til bóta, frá því sem nú er, en fullnægjandi eru þær engan veginn. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um almenningsviljann. Kvað hann almenning hjer í bænum ekki óska þess, að einkasala kæmist á. Lengi má um það þrátta. En óhræddur væri jeg að leggja í þá liðsöfnun á móti þm. Jeg er hræddur um, að hann yrði ekki liðsterkur. Sami þm. mintist á sektarákvæðin í frv. nefndarinnar. Sagði hann mig vanan því að leggja mikið upp úr hörðum sektarákvæðum. Satt er það, að jeg legg mikið upp úr þeim, ef lögreglueftirlitið er svo gott, að óhætt sje að reiða sig á, að ákvæðunum sje framfylgt. (G. Sv.: Er það ekki hjer?). Bæði þessum þm. og öðrum mun vera það ljóst, að alstaðar er skortur á, að hægt sje að hafa það eftirlit sem þarf. (G. Sv.: Þá þýðir ekkert að setja lög).

Hv. þm. Dala. (B. J.) er ekki inni, enda get jeg að mestu leyti gengið fram hjá ræðu hans. Mátti helst ráða það af orðum hans, að hann þættist geta verið sjálfum sjer nógur, og skal jeg ekki aftaka það. Hann rakti í sundur einstakar greinar frv. og hafði margt við það að athuga. En allflestar athugasemdir hans voru þannig vaxnar, að frv. á þgskj. 94, sem hann þó tjáði sig fylgjandi, ræður alls enga bót á þeim. Þá kem jeg að ræðu hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Ekki er til neins að þrátta lengi við hann. Við erum hjer hvor á sinni skoðun, og alt mót á, að hvorugur sannfæri hinn. Þó erum við í mörgum atriðum sammála. — Það liggur í hlutarins eðli, að með þeim, sem helst þurfa mjólkur með, er átt við þá, sem helst þurfa hennar til neyslu. Hv. þm. Dala. (B. J.) hefði alls ekki þurft að vera í neinum vafa um það. Þar sem þá er fyrst og fremst um börn og sjúklinga að ræða, er auðsjeð, hve afaráríðandi er, að mjólkin sje holl og hrein. Og til þess, að vera viss um það, þarf afarnákvæmt eftirlit. Eins og við mátti búast, er hv. 2. þm. Árn. (E. A.) mjer samdóma um þetta. Bæjarstjórnin hefir reynt eftir megni að hafa eftirlit með mjólkinni. (E. A.: Í vetur, já!). Nei, altaf. Það er ekki í fyrsta sinni í vetur, sem bæjarstjórnin hefir skift sjer af mjólkursölunni. Mjólk hefir hvað eftir annað verið gerð afturreka, þegar eitthvað hefir verið við hana að athuga. En hitt hefir líka þrásinnis komið fyrir, að eftirlitsmaðurinn hefir orðið að elta sama brúsann á 2 eða 3 mjólkursölustaði til þess að koma í veg fyrir, að mjólkin væri seld. Sjálfsagt hafa þessar misfellur verið kærðar fyrir lögreglustjóra, en mjer er ókunnugt um, hvern árangur það hefir borið. Mjer er kunnugt um það, að bæði hefir verið kvartað undan hreinlætisskorti í meðferð mjólkur, og líka um mjólkurgæði. Bæjarstjórnin getur ámint menn um að vanda meðferð mjólkurinnar, og hún getur hert á þeim, sem eftirlitið hafa á hendi, en annað getur hún ekki heldur. Þetta hefir hún margsinnis gert, en það þarf meira til, ef vel á að vera. Þá drap háttv. þm. á það, að framleiðendurnir sæju sjer hag í því að hafa mjólkina góða. Hagur þeirra og sómi hvetti þá til að vanda meðferð mjólkurinnar sem mest. Svo hefði það átt að vera, eins hingað til. Jeg skelli ekki heldur skuldinni á framleiðendur eina. Jeg veit, að sölustaðirnir eiga sinn hluta af sökinni, og jeg get ekki um það dæmt, hvors hluti er stærri. Það sem víst er er það, að gallar eru á, hverjum sem um er að kenna. Hvað því við víkur, að ef heimild til einkasölu verði veitt, þá sje það sama sem að segja mjólkurframleiðendum stríð á hendur, er mjer það satt að segja óskiljanlegt, hvers vegna þeir ættu að vera svo hörundssárir. Bæjarstjórnin grípur auðvitað ekki til einkasölunnar, nema brýn nauðsyn beri til. Og ef mögulegt reynist að koma mjólkursölunni í viðunanlegt horf á annan hátt, þá væri það ekki nema makleg refsing á mjólkurframleiðendur, þótt kosti þeirra yrði þröngvað, hvað þetta snertir. En jeg sje reyndar ekki, að til þess þyrfti að koma. — Þá er það, að sama fólkið mundi afgreiða mjólkina, sem nú hefir söluna á hendi. Ekki er það líklegt, að bæjarstjórnin kastaði höndunum að því að velja fólk til að afgreiða mjólkina. Hún verður þó að gæta sóma síns í þeim efnum. Hvað seðlaúthlutunina snertir þá er alt öðru máli að gegna með mjólkina en með þær vörur, sem nú eru seldar eftir seðlum. Um þær getur úthlutunarvaldið vitað upp á hár, hvað fyrir hendi er, og er því hægt að hafa eftirlit með því, sem selt er á hverri viku. Það er ekki hægt með mjólkina.

Samkvæmt frv. nefndarinnar er það á valdi heilbrigðisnefndar, hvort hún sviftir mjólkursala söluleyfi sínu eða ekki. Jeg efast um, að rjett sje að láta nefndina hafa það vald; engin trygging fyrir því, hvernig hún fer með það. Óefað yrði hægara að rannsaka mjólkina, ef bærinn hefði söluna í sinni hendi, heldur en nú er. Þótt ekki sje annað en það, þá má þó að minsta kosti gera ráð fyrir, að betri aðgæsla væri höfð með því á sölustöðum bæjarins, hvort vart yrði galla á mjólkinni eða mjólkurílátunum. — Ekki get jeg skilið það, að undanþágur frá einkasöluheimildinni þyrftu að valda óánægju. Jeg veit það vel, að framleiðendur hjer í bænum selja flestir mjólk sína milliliðalaust, og satt að segja finst mjer ekki mikið á móti því, að þeir fengju að halda því áfram. Meðferðin á þeirri mjólk er yfirleitt miklu betri en á hinni, sem flutt er lengra að, eins og eðlilegt er, því að mjög er vandfarið með mjólk á löngum flutningi. En einmitt þess vegna er minni þörf á eftirliti með mjólk, sem framleidd er í bænum.

Þá hefir mikið verið talað um, að einkasalan sje haft á frelsi framleiðendanna. Mjer er ómögulegt að skilja, að þeim sje neitt verra eða óhagstæðara að afhenda þjónum bæjarins mjólk sína heldur en þeim, sem nú taka við henni til útsölu.

Á það var drepið, að einn kúaeigandi hefði fært saman kvíarnar af ótta við það, að höft yrðu lögð á mjólkurframleiðsluna. Það má líklega segja það, að sú hafi verið ástæðan. Hitt tel jeg þó sönnu nær að ráðið hafi, að hann hafi gert sjer von um meiri gróða við annað. Enn fremur vítti hv. 2. þm. Árn. (E. A.) bæjarstjórnina fyrir það, að hafna tilboði því um kaup á kúabúi, sem hún fjekk í vetur. Jeg held, að hann hafi undan skilið mig þeirri ákúru, eins og vera bar, því að jeg var einmitt með því, að búið væri keypt. En það er dálítið einkennileg tilviljun, að það voru einmitt sömu mennirnir, sem standa á móti einkasölu á mjólk í bæjarstjórninni, og urðu til að fella kaupin á kúabúinu.

Annars væri hægt að drepa á mörg atriði enn þá í þessu máli, en jeg ætla nú ekki að lengja umræðurnar meir.