23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J M.):

Jeg ætla að leyfa mjer að tala nokkru nánara um eitt atriði en gert hefir verið. Fjármálaráðherrann (B. K.) mintist að vísu á það; en mjer þykir þó rjett að gera gleggri grein fyrir því, af því að það heyrir minni stjórnardeild til og jeg ber höfuðábyrgðina á því, hvernig sá liður er úr garði gerður í fjárlagafrv. stjórnarinnar. Jeg á hjer við fjárveitinguna til hælanna. Háttv. frsm. (M. P.) sagði, að sjer og nefndinni allri væri óskiljanlegt, hversu lítið fje stjórnin ætlaði til þeirra. Jeg átti sjálfur mestan þátt í því að semja áætlanir þessar, og skal nú stuttlega skýra frá, á hverju jeg bygði þær. Er þess þá fyrst að geta, að í áætlunum þessum hefir verið farið sem næst því, sem forstöðumenn stofnana þessara lögðu til, að undan skildum tveim liðum, kostnaðinum við mat og eldivið. Það hefir að undanförnu verið venja stjórnarinnar að fara í áætlunum sínum að miklu leyti eftir tillögum forstöðumannanna; að minsta kosti hefir hún ekki farið hærra.

Í nál. fjárveitinganefndar segir svo, að það sje fyrirsjáanlegt, að ómögulegt muni verða að komast af með þær upphæðir, sem stjórnin leggur til, að veittar verði til stofnana þessara, og virðist nefndinni alveg óskiljanlegt, hvernig stjórninni hafi dottið í hug að nefna svo lágar upphæðir. Svo bætir nefndin við: Þetta á auðvitað sjerstaklega við fæðiskostnað og kostnað við eldsneyti og ljósmeti. Að því er holdsveikraspítalann snertir þá er matarverðið alveg sniðið eftir tillögum spítalalæknisins og sett 72 a. á dag fyrir hvern mann; hafði það áður verið lítið eitt lægra.

Af því að stjórnin ætlaði, að ekki þyrfti að áætla hlutfallslega hærra fyrir Kleppsbúa, setti hún sömu upphæðina á mann þar.

Jeg verð að taka undir með fjármálaráðherranum (B. K.), að það sje ástæðulaust og ekki vel við eigandi að væna stjórnina þess, að hún hafi viljað fara í felur með kostnaðinn.

Í marsmánuði í vetur var ekki unt að segja með nokkurri vissu — og er raunar ekki enn — að þessi kostnaður verði öllu meiri 1918 og 1919 en hann var 1916; og þótt líklegt sje, að hann verði hærri 1918, má vona, að hann verði aftur lægri 1919. Jeg verð því að halda því fram, að áætlun stjórnarinnar hafi ekki verið óforsvaranleg, og að svo stöddu sje ekki auðvelt að segja, hvor rjettara hafi fyrir sjer, stjórnin eða nefndin. Fæðiskostnað í Vífilsstaðahælinu setti stjórnin 1 kr. dag handa manni, og er það líkt hlutfall og verið hefir að undanförnu milli fæðiskostnaðar þar og í Laugarnesspítala. Sje jeg ekki betur, eftir þeim reikningum, sem jeg hefi haft fyrir mjer, en að það muni vera líkt og var 1916; þá sýnist fæðiskostnaðurinn hafa verið nokkurn veginn nákvæmlega 1 króna á mann. Að vísu mun forstöðumaður hælisins hafa nefnt 1 kr. 25 aura, en stjórninni þótti ekki ástæða til að leggja þar annað til grundvallar en við hin hælin.

Jeg tek það enn fram, að hjer er ekki nema um álitamál að ræða; ástandið er þannig, að enga fullábyggilega áætlun er hægt að gera um þetta, fremur en svo margt annað. Mjer finst hv. nefnd því varla hafa leyfi til að segja, að áætlun stjórnarinnar sje gersamlega óskiljanleg. Færi svo, eins og margir vonuðu í vetur, að stríðið endaði á þessu ári eða fyrri hluta næsta árs, og vonlaust er það ekki, þá tel jeg víst, að það fje, sem stjórnin hefir áætlað, muni endast yfir bæði árin samanlögð. Hjer er því um nokkuð harðan dóm að ræða.

Aftur get jeg ætlað, að telja megi áætlunina um kolaverðið í lægra lagi, jafnvel þótt miðað sje við útlitið í vetur, þegar hún var gerð. Þó var þá töluverð ástæða til að ætla, að kolaverð 1918 og 1919 mundi ekki verða meira en helmingi hærra en fyrir stríðið.

Þegar áætlunin var gerð, var kolaverðið 86 kr. tonnið, en var áætlað 50 kr.; nú er það orðið nálægt 300 kr., en nefndin áætlar það 100 kr., og sýnist sú áætlun ekki forsvaranlegri en áætlun stjórnarinnar, á þeim tíma sem hún var gerð. Það sýnist því, sem hvorugur geti dæmt annan hart, þar sem um jafnmikið álitamál er að ræða. Svo er það nokkuð efasamt, hvort fara eigi mjög hátt í áætlunum um fjármál nú. Þá má telja jafnrjetta þá reglu, sem fjármálaráðherrann (B. K.) talaði um, að rjettast mundi að fylgja, að taka ekki mjög mikið tillit til augnabliks-ástandsins, heldur fara sem næst venjulegu ástandi.

Mjer fanst skylt fyrir mig að minnast sjerstaklega á þennan lið, því að fjármálaráðherrann (B. K.) á minsta sök á því, hvernig hann er úr garði gerður; hann heyrir minni stjórnardeild til, eins og jeg gat um áðan.

Ef fara á með alt eins hátt og háttv. nefnd vill fara, þá hygg jeg, að verið sje að leggja út á hálan ís, og lítil hvöt gefin af hálfu fjárveitingavaldsins til að spara sem mest Það er hvort sem er ekki hægt að gera nú neinar ábyggilegar áætlanir, og verður því síðar meir að bæta úr skakkanum á annan hátt en með venjulegum tekjum. Við neyðumst til að fara sömu leið og háttvirt nefnd veit, að aðrar þjóðir gera. Þær hækka ekki gjöldin mjög mikið á þessum erfiðu tímum, til þess að jafna tekjuhallann, heldur láta þær þetta sjerstaka ástand bera sig á annan hátt.