04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi koma að örstuttri athugasemd. Við, sem erum í mentamálanefndinni, höfum ekki stundað sjó nú undanfarin ár, og höfum litla þekkingu á sjómensku. En við erum ekki heldur að hlaupa í kapp við neinn um sjómenskuþekkingu. Hjer er um skólamál, en ekki um sjómensku, að ræða. Það er sama máli að gegna um sjómannaskóla sem um aðra skóla. Kostnaðurinn við þá er álíka, og landssjóði ber lík skylda til að draga úr kostnaði þeirra, sem sækja skólana, um hvaða skóla sem svo er að ræða.

Það er ómótmælanlegt, sem hv. framsögumaður (M. P.) tók fram, að kostnaður er minni við að hafa einn skóla í Reykjavík en sinn skólann á hverju landshorni. Það eru og stórum meiri líkur til að sá skóli verði góður, sem öllum bestu kröftunum er varið til, en ef mörgum skólum væri dreift um landið. Ef skólahúsið hjer er oflítið, er betra að bæta við það, eins og þarf, heldur en reisa skólahús út um alt land. Ef kenslukraftarnir hjer eru ekki nægilegir, er og betra að fjölga kennurum hjer heldur en setja kennara úti um land alt. Ef farið er út á þá braut að fjölga skólum, má telja víst, að hver fjórðungur krefjist að fá skóla, og væri engum hægt að neita, ef einum er veitt.

Það er aftur hárrjett hjá hv. flm. (M. Ó.), að oflitlar kröfur eru gerðar til þeirra, sem eiga að stýra bátum, sem eru frá 12—30 smálestir að stærð. Þeir ættu allir að vera skyldir til að taka „minna prófið“. Þar fyrir gætu þeir sótt þekkinguna hingað til Reykjavíkur. Það mundi borga sig betur fyrir landið að borga ferðakostnað þessara manna en að setja skóla á hvert landshorn.