22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

46. mál, forðagæsla

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Þetta frv. hefir ekki fengið góðar undirtektir hjá landbúnaðarnefnd, því að 4 af 5 leggja til að fella það, og sá 5. vill að eins samþykkja það með verulegum breytingum.

Það hafa oft komið fram raddir um það að afnema þessi lög. Forðagæslulögin eru ný lög, frá 1913, og hafa ekki verið reynd til hlítar; meira að segja er ekki komin enn forðagæsla á í öllum hreppum.

En hvað er það nú, sem menn setja út á lögin? Mjer finnast mótbárur gegn þeim vera að mestu út í bláinn, enda er sannleikurinn sá, að landsmenn hafa ekki enn kynt sjer þetta mál svo vel, að þeir geti litið á það rjettum augum. Í ástæðum fyrir frv. er þess getið, að lögin sjeu óvinsæl. En hvers vegna eru þau það? Hvað finna menn að þeim? Nú verður það ekki sjeð af frv., að skyldum manna í þessu efni sje breytt að nokkru leyti. Það mætti þó ætla, að þeir, sem ekki vilja hlíta lögunum, vildu breyta þessu, en því er ekki að heilsa, eins og sjá má af 7. gr. Það, sem jeg, sem kunnugur maður framkvæmd laganna, hefi helst álitið að almenningur fyndi að, er það, að menn hafa ekki til hlítar áttað sig á matinu og því, hvort það sje á rjettu bygt. Hjer er sem sje um nýja aðferð að ræða við mat á heyjum, sem jeg er hræddur um, að matsmenn hafi ekki sett sig vel inn í og almenningur alls ekki. Það er athugandi, að ákvæðin í forðagæslubókunum um matið eru svo, að mönnum verða þau torskilin, og eins í skýrsluformunum. Það er ákveðið, að heyin skuli bæði mæld og metin í teningsmetrum, og þetta hefir vilt mönnum sýn, svo að margir hafa lent í vandræðum og ekki treyst sjer til að meta heyin þannig, heldur sett annað mat, hesta eða pund. Þetta er slæmt, en það er ekki lögunum að kenna, heldur því, að bændum er ekki nógu ljóst, hvernig þeir eigi að framkvæma þetta mat. Það er víst bjargráðastjórnin, sem útvegar bækurnar og líklega hlutast til um formið, en hvernig sem því er varið, þá er það óheppilegt form að hafa matið í teningsmetrum, og varð til af einhverjum misskilningi, og leggur því meiri hluti nefndarinnar í frv. sínu til að ákveða þyngd heysins, og sje fóðurforðinn í matsdálki talinn í forðamálum. Áður var heyið metið eftir hestum, og gekk það slysalaust; raunar voru menn þá líka óánægðir með gamla lagið, og voru sumir svo nánasarlegir að sjá eftir þeim skildingum, sem gengu til skoðunarmannanna, en yfirleitt gekk þetta þó möglunarlítið. En forðamatið var meira og minna ónákvæmt og af handahófi. Þessi löppun upp á eldri lögin, sem fram fór 1913, átti auðvitað að koma í veg fyrir horfelli, og meðan svo er, að menn kunna ekki að setja á, þá er ekki um annað að gera en að hafa eftirlit með ásetningu. Það er svo enn í dag, að menn athuga ekki nógu gaumgæfilega, hvað langt þeir megi fara, og komast svo í heyþrot. Menn dreymir um það á haustin, að veturinn verði góður og setja svo á upp á von og óvon, án þess að nokkurt vit sje í.

Meiri hluti landbúnaðarnefndar hefir ekki getað sjeð, að neitt verulegt sje út á forðagæslulögin að setja, að öðru leyti en því, að í þeim þyrftu að vera ákvæði, sem segi fyrir, hvernig fóður skyldi metið, því að það hlýtur að vera meiningin, fyrst að lögin eru sett, að framkvæmdirnar verði sem líkastar um alt land. Að vísu eru staðhættir mismunandi hjer og þar, en jeg get samt ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu, að sama reglan geti gilt alstaðar. — Þessu máli til skýringar skal jeg geta þess, hvernig þetta hefir gengið til í Norður-Múlasýslu, og hvernig þessar skýrslur hafa reynst. Síðan byrjað var á að semja þessar skýrslur, eins og lögin mæla fyrir, urðum við varir við það í Norður-Múlasýslu, að vikið var víða frá skýrsluforminu, og að skýrslunum var í hinu og öðru ábótavant, og svo framarlega sem nokkurt gagn ætti að þeim að vera, þá yrði að ráða bót á þessu, því að eins og það var þá var það svo að segja óþolandi. Niðurstaðan á sýslufundi varð síðan sú, að maður var kosinn til að athuga skýrslurnar og hvað að þeim væri og koma síðan með tillögur, hvernig þetta yrði best lagfært. Þessi maður lagði svo til, að reglugerðinni skyldi breytt þannig, að í staðinn fyrir „mat í teningsmetrum“ kæmi „mat í forðamálum“. Í hverju forðamáli eru 33,5 kg. af heyi. En þetta núverandi forðamál, sem bygt er á, hefir Guðjón Guðlaugsson, fundið, samkvæmt rannsóknum, sem hann hefir gert. Hann hefir lengi verið skoðunarmaður, og kom með tillögur um, að hey skyldi þannig metið, að viss tala forðamála skyldi gerð í hverjum teningsmeter heys. Nú vitum við allir, að þegar tekið er mál af heyi, þá eru heyin misjafnlega gerð, sum föst, en sum aftur laus, og gerir það auðvitað erfiðara að fá út það rjetta. En aðferðin er þá þannig, að fyrst er mælt, hversu margir teningsmetrar heyin sjeu, og síðan verður að giska á, hversu mörg forðamál megi gera í hverjum teningsmeter, og þegar maður síðan hefir fengið tölu forðamálanna, þá er auðvelt að sjá, hversu mikil heyin eru og hve lengi þau endast. Þetta sjá allir, að er miklu vissari leið og fer nær því rjetta um heyin en ef alt á að vera óbundið og ekki farið eftir neinum ákveðnum reglum. Þetta er alls ekki vandalaust starf, að vera skoðunarmaður, en ef engar reglur eru settar, er miklu meiri hætta á, að menn kasti til þess höndunum. — Hv. flutningsmenn leggja mikla áherslu á það, að forðagæslumenn sjeu vel valdir, og telja það aðalatriðið. Mjer dettur ekki í hug að bera á móti því, en hitt álít jeg engu síður áríðandi, að vandað sje til um matið á heyjum með föstum reglum. Að öðrum kosti er altaf mikil freisting til að fara eftir ónákvæmum upplýsingum um forðann, þegar engar skyldur hvíla á mönnum þar að lútandi. Nú kunna sumir að segja, að skoðunarmenn fari mjög nærri um heyforðann, þó að ekki sje mælt, en sannleikurinn er sá, að það hlýtur altaf að vera af handahófi gert, og á fárra manna færi að komast nálægt því rjetta.

Í ástæðum fyrir frv. er lögð áhersla á að binda menn ekki við form, enda er það ekki gert í frv. En þá breytingu telur nefndin mjög misráðna og fram komna af ókunnugleika á málinu. Vísa jeg í nefndarálitið, þessu til sönnunar.

Nefndin hefir ekki heldur getað fallist á þá skoðun, að sömu reglur geti ekki gilt alstaðar. Jeg hefi hugsað þetta mál, og auk þess verið forðagæslumaður í nokkur ár, og get því talað af töluverðri reynslu. Jeg er sannfærður um það, að ef forðagæslumenn notuðu þessi lög dálítinn tíma, mundi svo fara, að þeim þættu lögin góð. Það er áreiðanlega í alla staði heppilegra að mæla heyin og meta eftir því en giska á af handahófi, og síðan er altaf hægt að reikna út forðann eftir einhverju lögboðnu forðamáli; það þarf ekki endilega að vera forðamál Guðjóns Guðlaugssonar. Jeg held, að það væri mjög misráðið að breyta frá í þessu efni, því að þótt aldrei nema sje satt, sem hv. flm. segja, að óánægja sje með forðagæslulögin, þá held jeg, að hún sje eingöngu sprottin af misskilningi og þeim galla, sem er á skýrsluforminu um matið og jeg hefi minst á. Þá er og önnur breyting, sem hv. flm. hafa fram að bera, sem sje kosning forðagæslumanna. Jeg hygg, að það sje hvorki nauðsynlegt nje að betur fari á því að láta sýslunefndir kjósa þessa menn. Það gæti hæglega viljað til, að þær væru ekki nægilega kunnugar, og veldu til þess menn, sem hvergi nærri væru færir til þess, eða gætu ef til vill ekki farið að heiman í skoðunarferðir, þegar fara ætti. Hitt tel jeg heppilegra, að hreppsbúar kjósi mennina sjálfir; þeir eru þeim kunnugastir, og það er í þeirra þágu, að sem best sjeu valdir, enda er það mjög áríðandi, eins og jeg tók fram áðan. Um það er jeg flm. alveg sammála.

Þá kem jeg að launaspursmálinu. Hvað hækkun á launum skoðunarmanna viðvíkur þá hygg jeg, að hún sje best fallin til þess að auka óánægju með þessi lög meir en hefir verið. Því að mjer er kunnugt um það, að bændum hefir þótt fullkomlega nóg að borga 2 kr. á dag, hvað þá ef þeir ættu að borga 5 kr., enda þótt jeg viðurkenni, að í sjálfu sjer sje 5 kr. alls ekki ofhátt. Jeg álít, að þetta verði óheppileg breyting, bæði af þessari ástæðu, sem jeg nefndi, og enn fremur af því, að jeg held, að í hverri sveit sjeu til vel færir menn, sem vildu taka að sjer að vera skoðunarmenn fyrir mjög litla þóknun. Því að nú er svo komið, að áhugi er vaknaður í hverri sveit fyrir sig, fyrir því að standa sem best að vígi, og sú skoðun orðin föst hjá mönnum, að þjóðarskömm sje bæði út- og inn á við, ef ekki er hægt að afstýra horfelli. Það er nú öllum ljóst, að þetta ásetningarmál er stórþýðingarmikið mál, þótt menn að vísu geti greint á um, hvernig því sje best fyrir komið. Eitt af því, sem mælir með því, að forðagæslumenn sjeu hafðir, er það, að bændur hafa hitann í haldinu, þeir sem hættast er við felli hjá, þegar þeir eiga von á slíkum mönnum til skoðunar, en þó auðvitað því að eins, að þessir menn sjeu í alla staði virðingarverðir heiðursmenn, sem vel er treystandi. Jeg hygg, að hv. flm. hafi komið með þetta frv. af þeirri ástæðu, að þeir hafa ekki kynt sjer þetta mál nógu vel, og farið altof mikið eftir umkvörtunum og aðfinnslum annara. En jeg tel efalaust, að þeir komist á aðra skoðun, ef þeir rannsaka málið á ný og tala við menn, sem þekkja það út í æsar. — Hv. minni hluti landbúnaðarnefndar vill samþ. frv. með ýmsum breytingum, sem hann tiltekur. Fyrsta breyting er um kosningu forðagæslumanna, og er hann þar sammála meiri hluta, en svo er önnur breyting á því, hve nær skoðun skal fara fram.

Hv. minni hluti vill hafa 1—2 skoðanir, eins og segir í 3. gr.: „Hver forðagæslumaður skal að minsta kosti einu sinni á vetri koma til eftirlits á hvert heimili, sem honum er falið til umsjónar, og fari það eftirlit fram síðla vetrar. Þar að auki skal hann kynna sjer vandlega að vorinu fyrningar og skepnuhöld á hverju heimili“. — Þessi aðferð, sem hjer greinir, held jeg að sje mjög misráðin hjá hv. frsm. minni hl. (E. Árna.), þar sem hann fer ekki fram á haustskoðun, því að það er einmitt sú skoðun, sem mest ríður á og alt er undir komið. Að öðrum kosti fer að verða þýðingarlítið að hafa þessa gæslumenn. Það er meiningin, að forðagæslumaður gefi þeim, sem hlut á að máli, bendingar um það, hvernig hann standi að vígi með ásetningu undir veturinn, og að hann hagi sjer síðan eftir því. Líka getur það verið heppilegt, að gæslumaður líti á, hvernig skepnur líti út, því að það getur orðið bændum hvöt til að láta þær líta sem best út, ef þeir eiga von á slíkri skoðun. Í nefndaráliti hv. minni hluta er enn fremur talað um það, að það sjeu ekki ströng lagaákvæði, sem komi að tilætluðum notum í þessu máli, heldur þurfi hvötin að koma innan frá hjá hverjum einstaklingi. Þetta er auðvitað gott og blessað, svo framarlega sem þessi hvöt er nógu rík hjá mönnum. En að svo er ekki, sýnir reynslan betur en nokkuð annað.

Annars þykir mjer hálfundarlegt, að hv. sami þm. (E. Árna.) gengur alveg fram hjá þessum ströngu lagaákvæðum í tillögum sínum. Ákvæðin um skyldur þeirra, sem komast í fóðurþröng, standa óbreytt.

Við þessi ákvæði hefir hv. þm. (E. Árna.) ekkert að athuga. Það, sem mjer að öðru leyti finnst einna mestu máli skifta hjá forðagæslumönnum, er að þeir fari nógu skynsamlega og vægilega í sakirnar, þegar þeir gefa mönnum bendingar um, hvernig þeir sjeu staddir. Þetta á að vera eins og hvert annað spjall manna á milli, því að þá er engin hætta á, að það móðgi menn, þó að sagt sje greinilega, hvað að sje.

Sje heyið oflítið, sem sett hefir verið á fyrir veturinn, þá má með viturlegum orðum sannfæra menn um, að þetta endist ekki og það verði að útvega meira fóður. Sje þetta gert nógu lipurlega, þá efast jeg ekki um góðan árangur. En aftur á móti mundi allur ofstopi og frekja leiða til ills eins, eins og jafnan vill verða. Nú hefir nefndin leyft sjer að koma með þá breytingu við forðagæslulögin, að skoðunarmenn fái minst 2 kr. á dag, og að mældar sjeu hlöður og tóftir og hey metið í forðamálum, en ekki í ten. metrum.

Auðvitað má breyta málinu með reglugerðarákvæðum, en nefndinni þótti vissara að fá þetta inn í lögin.

Komist þessi breyting á, verður matið miklu nákvæmara og skýrslugerðin langtum auðveldari.

Ef þannig yrði gengið frá málinu, fengi hagstofan sannar skýrslur til að vinna úr, því að svo er til ætlast, að hún fái útdrátt úr skýrslunum árlega. Jeg tel það ekki lítils virði fyrir eftirkomendurna að hafa nákvæmar og sannar skýrslur um þetta efni.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta, en vil að eins bæta því við, að mjer er kunnugt um, að forðagæslumenn hafa oft verið í mestu vandræðum, hvernig þeir ættu að meta heyin eftir skýrsluforminu. Að meta hey í teningsmetrum er alveg rangt; heyið á að meta í fóðureiningum, sem hafa vissan þunga. Bændur vilja fá að vita um hestatöluna. Það getur forðagæslumaður sagt þeim undir eins, ef hann metur í forðamálum, því að hvert forðamál á að hafa vissan þunga, eins og heyhesturinn

Jeg vil svo að endingu skjóta því til hv. flm. og minni hl., hvort þeim sýndist ekki, að rjett væri að láta þessi lög standa dálítið lengur, svo að hægt sje að sjá. til fullnustu, hvernig þau reynast.