22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2616)

46. mál, forðagæsla

Frmsm. minni hl. (Einar Árnason):

Eins og þingskjal 289 ber með sjer hefi jeg ekki getað orðið hv. meðnefndarmönnum mínum samferða í þessu máli. Jeg get sparað mjer að tala mikið um málið alment hjer, því að það, sem jeg vildi sagt hafa, er tekið fram í nefndarálitinu. Jeg er hv. meiri hluta sammála, hvað 1. og 2. breytingu snertir, því að jeg tel þær ekki vera til neinna bóta. Það er áreiðanlega heppilegra, að skoðunarmennirnir sjeu kosnir af sveitum heldur en að láta sýslunefndir gera það, því að jeg veit, að það er oft gert með samkomulagi manna milli innbyrðis, og það er einmitt besta tryggingin fyrir, að mennirnir verði vel valdir og góð samvinna náist. Sýslunefndir eru aftur á móti oft ekki nægilega kunnugar til þess, að þeim geti tekist það nægilega vel.

Eins og hv. frsm. meiri hlutans (J. J.) tók fram gæti þetta líka komið allhart niður á einstökum mönnum, með því t. d., að sýslunefnd skipaði þann mann til starfsins, er alls ekki gæti sint því, einhverra hluta vegna. Verður hann þá að skorast undan, og gæti þá alt lent í rekistefnu aftur og fram.

Auðsjeð er á nál. meiri hlutans, að hann telur lögin óvinsæl, og það ekki svo lítið. Þá væri víst ekki úr vegi að kynna sjer, hvað þeim óvinsældum veldur, og reyna að ráða bót á því. Jeg hefi gert mjer alt far um að afla mjer upplýsinga um þessi lög, síðan þau komu í gildi, hvernig þau eru framkvæmd, hvernig mönnum geðjast þau, og hvert gagn þau hafa gert, og niðurstaðan hefir orðið þessi. Lögin hafa allvíða alls ekki verið framkvæmd, og þar sem það hefir verið gert, þá er það nafnið eitt, hvað haustskoðanirnar og skýrslugerðirnar snertir.

Það er nú alls ekki af því, að lögin sjeu svo óvinsæl í heild sinni, að þetta gengur svo, heldur eru það einstök atriði í þeim, og þá einkum haustskoðanirnar og þessar fyrirskipuðu skýrslugerðir. Er jeg þá kominn að brtt. minni við 3. gr., sem fer í þá átt að lögskipa ekki haustskoðanir, heldur veita heimild til þess, að þær fari fram. Því hefir verið haldið fram, að þetta væri að kenna skilningsleysi manna, að vilja ekki haustskoðanir. En það er ekki rjett. Það er ekkert undarlegt, þótt gamlir og reyndir bændur — og þeir eru margir í hverri sveit — sem ætíð hafa verið bjargvættir sinnar sveitar, brosi að bröltinu, er komið er heim til þeirra á haustnóttum, til þess að mæla heyskapinn í álnum og telja kindurnar, meðan þeir horfa á það, að óráðlingarnir, — sem aldrei geta verið annað en óráðlingar, þrátt fyrir allar lagasetningar — eru heylausir á vorin, eins og áður, þrátt fyrir allar haustskoðanir og forðagæslumenn, og þurfa að fá hjálp. Þetta er ekkert skilningsleysi. Þvert á móti. Þeir sjá þarna hinn raunverulega sannleika í þessu efni. Það hefir verið sagt um reynsluna, að hún sje ólygnastur dómari í hverju máli. Og þá er rjettast að líta yfir undanfarin ár. Öll vorin, síðan lögin komu í gildi, að undanteknu þessu síðastliðna, hefir verið meira og minna heyleysi og jafnvel fjárfellir um alt land. Engin má þó skilja orð mín svo, að jeg telji þetta haustskoðununum að kenna. Jeg held sem sje að það verði aldrei hægt að kenna þeim neitt, og ekki heldur þakka. Til þess eru þær ofmikið „humbug“. Og þetta er alt ofureðlilegt. Forðagæslumenn hafa í sumum sveitum lítil skilyrði eða aðstöðu til að gera gagn, og í sumum sveitum alls engin, og það einmitt í þeim sveitum, sem helst væri þörf á því, þeim sveitunum, sem verða ætíð að setja að meira eða minna leyti á „guð og gaddinn“. Það er ekki ætíð af tómri heimsku, að menn setja illa á. Það getur í mörgum sveitum verið nauðsyn, en sumir gera það af gróða von, og þeir menn kæra sig alls ekki um neina hnýsni annara um það, og leiða þá eðlilega forðagæslumanninn á villigötur. Það er líka ofur auðvelt, því að ekki veit hann, hversu margir hestar eða kindur eru úti um hagann. Hjer verður gagnið ekkert. En þótt nú forðagæslumaður sæi, að illa væri sett á hjá einhverjum búanda, þá getur hann ekkert að gert, því að hann er valdlaus, og bóndi situr við sinn keip. Hjer ber að sama brunni.

En setjum nú svo, að forðagæslumönnum væri fengið ótakmarkað vald í hendur til að lóga búfje manna eftir sínu höfði; þá er jeg viss um, að enginn einasti forðagæslumaður á landinu myndi taka á sig þá siðferðislegu ábyrgð, sem því væri samfara, að farga fjenaði bænda þeim að nauðugu. Og þá er ekki enn neinu takmarki náð. Það er vitanlegt, að hjer á landi eru margar sveitir, þar sem hross, hundruðum saman, ganga úti á vetrum, og er ætlað lítið eða ekkert fóður. Myndi löggjafarvaldið vilja stuðla að því, að allur sá fjöldi yrði skotinn niður einn góðan haustdag, og með því stofna til fjárhagsvandræða í þessum sveitum? Það er naumast líklegt. En ef þetta er ekki gert, þá er ásetningsskoðun að haustinu ástæðulaus. Eða ef litið er yfir allar þær sauðfjárræktarsveitir í landinu, þar sem óhjákvæmilegt er, að setja fjenaðinn að mestu á útbeit, vegna heyskaparleysis. Í mörgum árum gengur þetta vel, en oft hefir þó komið fyrir, að landbeitin lokast af fönnum, en fjörubeitin af hafís. Ef nú þessar sveitir eiga ætíð að vera tryggar í versta vetri með nægar fóðurbirgðir, þá eru þær bókstaflega dauðadæmdar sem landbúnaðarsveitir. Hjer ber því enn alt að sama brunni, og niðurstaðan verður sú, sem reynslan er þegar búin að sýna.

Enn vil jeg taka eitt fram í þessu sambandi. Með þessum þýðingarlausu haustskoðunum er lömuð sjálfstæðishvöt og ábyrgðartilfinning manna, auk þess sem athafnafrelsi einstaklingsins er herfilega misboðið.

Mjer skildist á hv. framsm. meiri hl. (J. J.), að hann teldi skýrslugerðina einn aðalbjargvættinn í þessu máli. Um þessar skýrslugerðir hygg jeg að verði vægast sagt, að þær geri hvorki gott nje ilt, og enga nauðsyn tel jeg á því, að allir hafi sömu aðferð um mælingu heyja. Tel jeg rjettara, að forðagæslumenn ráði sjálfir, hvernig þeir haga því. Aðalatriðið er, að þeir fái á einhvern hátt yfirlit yfir ástandið í hreppnum, og gefi hreppsnefnd glögga skýrslu um það, svo að hún geti, í samráði við forðagæslumenn, ráðið fram úr vandræðum, ef þau eru fyrir hendi. Hv. framsm. (J. J.) talaði um það, að nauðsynlegt væri samræmi í skýrslugerðum um alt land. Jeg sje enga nauðsyn á því, enda verður aldrei neitt samræmi í niðurstöðu þessara skýrslna. Tökum dæmi. Pjetur og Páll eru nágrannar. Jarðir þeirra eru eins, og haustskýrslurnar sýna, að þeir hafa báðir sett á jafnmikil hey. Pjetur hefir nóg hey fram yfir sauðburð, en Páll er heylaus á góu. Hvað er svo hægt að leggja upp úr þess konar skýrslum? Jeg held ekki neitt, fyr en búið er þá að samræma líka allar jarðir, allar sveitir og alla fjármuni á landinu. Nei, jeg er sannfærður um, að sá tími kemur, að þessar löngu og fyrirferðarmiklu skýrslur fá sama dóm og skýrslurnar um alidýrasjúkdóma fengu nú nýskeð í þessari hv. deild. Þær eru ekki til annars en að hrúga upp bunkum af blekugum pappír, þar til stofnað verður embætti til að moka öllu draslinu í sjóinn, — og það væri líka landhreinsun.

Hvað viðvíkur brtt. minni við 7. gr. þá hefi jeg ekkert um hana að segja, annað en það, að jeg mun taka hana aftur, ef brtt. mín við 3. gr. verður feld.

Jeg hefi nú skýrt frá afstöðu minni til frv., er hjer liggur fyrir. Sje jeg því ekki ástæðu til að fara lengra út í málið, en vil ráða hv. deild til að samþykkja frv. með brtt. mínum.