22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

46. mál, forðagæsla

Þorleifur Jónsson:

Jeg skal strax geta þess, að jeg lít líkt á þetta mál og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Sú breyting, að láta sýslunefndirnar kjósa forðagæslumennina, verður síst til bóta. Með því að fá sýslunefndarmönnunum einveldi í þessu máli verða lögin gerð enn óvinsælli en þau eru nú, og má þó ekki á það bæta. Jeg get því ekki fylgt hv. meiri hluta að málum, því að jeg sje ekki, að tillögur hans verði til nokkurs gagns.

Aftur á móti verð jeg að álíta, að hv. minni hluti fari rjettari leið í þessu máli. Hann vill fella niður haustskoðanirnar, enda hefir hingað til ekki sjest neinn árangur af þeim skoðunum, sem ekki er heldur von. Hvernig á að dæma af nokkru viti um heybirgðir manna með því að líta á haustin á fullar hlöður og hey, í tóftum, sem hafa verið tyrfð og gert í kringum? Það geta allir sjeð, að slík skoðun hlýtur altaf að vera nokkuð af handahófi. Og þótt skoðunarmenn geti mælt rúmmál heyja, þá er þess engin von, að þeir geti metið fóðurgildi þeirra. Jeg fyrir mitt leyti álít haustskoðunina vera kák eitt og óþarfa kostnað. Hins vegar held jeg ekki, að menn sjeu alment mjög; óánægðir með að skoðun fari fram síðla vetrar.

Hv. frsm. meiri hlutans (J. J.) spurði, hvað menn fyndu lögunum til foráttu. Hann hlýtur þó að vita, að lögin hafa ekki hingað til gert neitt gagn, enda játaði hann það. En sje svo þá er ekki fremur von um, að þetta frv. verði að liði, ef það verður að lögum.

Hv. frsm. meiri hlutans (J. J.) sagði, að forðagæslumannsstarfið væri svo vont, að menn væru ófúsir á að taka við því. En sjeu menn ófúsir til þess, hví á þá að neyða þá til þess? Ekki verður meira gagn að lögunum með því móti. Jeg er hræddur um, að þótt hv. 1. þm.

N.-M. (J. J.) haldi fram áliti meiri hluta í þessu máli, þá gangi honum illa að sanna, að gagn hafi orðið af lögunum, jafnvel fyrir austan, eða að þau hafi þar komið í veg fyrir vanhöld á fjenaði og jafnvel felli á stöku stað. Menn eru alment farnir að játa, að lögin hafi ekkert gagn gert, og þetta er meira að segja játað af sumum í Búnaðarfjelagi Íslands. Fóðurbirgðanefndin, sem starfaði á búnaðarþinginu í sumar, segir í nefndaráliti sínu: „Það mun jafnan reynast best og heillavænlegast, að þær umbótahreyfingar, er taka til mikils fjölda almennings, eigi upptök sín í hans eigin brjósti, og hafi að baki sjer sterka sannfæringu um, hve heillavænlegar þær sjeu“.

Þessi lög hafa upptök sín að ofan, en ekki frá almenningi, og hafa ekki enn að baki sjer neina sterka sannfæringu um nytsemi.

Hitt er annað mál, að menn eru nú smátt og smátt að vakna í fóðurbirgðamálinu, og það er eina ráðið til að koma málinu í rjett horf. Því að ef menn eru sofandi, þá stoða tóm lagafyrirmæli ekki neitt.

Jeg hygg, að það væri rjettast fyrir þá, sem vilja þessu máli vel, að hallast að tillögum hv. minni hluta nefndarinnar, því að það er mín trú, að verði haustskoðanirnar ekki lögboðnar, þá verði lögin vinsælli og geri þá meira gagn. Þar, sem menn vilja hafa haustskoðanir, er hægt að koma þeim á án þess að þær sjeu lögákveðnar. En þeir, sem enga trú hafa á þeim, eiga að fá að vera lausir við þær.

Jeg skal nú ekki segja meira að sinni, enda hygg jeg, að málið sje orðið þrautrætt.