22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2620)

46. mál, forðagæsla

Hákon Kristófersson:

Það er alveg rjett, að málið er nú orðið þrautrætt, og má það því nærri heita að bera í bakkafullan lækinn að bæta við umræðurnar, en þar sem málið er mikils vert, er ekki ófyrirsynju þótt það sje ítarlega rætt.

Þótt jeg geti verið hv. 1. þm. S -M. (Sv. Ó.) sammála um kosningu og kauphækkun forðagæslumannanna, þá verð jeg að segja það, að mjer virðist afstaða háttv. framsögumanns meiri hluta (J. J.) til launa forðagæslumannanna nokkuð undarleg, ef tillit er tekið til ummæla og afstöðu hans til kauphækkunar sýslunefndarmanna. Þótt jeg, eins og sakir standa, vilji ekki hækka kaup forðagæslumanna, hefði mátt vænta þess, að háttv. landbúnaðarnefnd, með tilliti til þess, hverjir í henni sitja nú, væri ekki á því máli, að 2 kr. kaup á dag væri sæmileg borgun. Mjer kemur það mjög á óvart, að svo vitrir menn, sem þeir eru, hv. þm. V.-Sk.

(G. Sv.) og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), skuli halda fram annari eins endemis fjarstæðu og þeirri, að láta sýslunefndirnar kjósa forðagæslumennina, í stað hlutaðeigandi hreppsfjelaga.

Hv.frsm. minni hluta (E. Árna.) og hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) vilja báðir halda því fram, að haustskoðanirnar geri ekkert gagn. Jeg get ekki fallist á þetta. Enda hafa þeir ekki bent á neitt, sem rjettlæti það að nema haustskoðanirnar úr lögum.

Meðal annars, er jeg hafði á móti haustskoðuninni (ásetning), var það, að háttv. frsm. minni hluta (E. Árna.) sagði, að gamlir bændur kynnu því illa að láta aðra vera að setja á fyrir sig. Jeg skil þetta vel, ef þeir eru svo einrænir, að þeir geta ekki vitað skynsama menn koma á heimili sín til skrafs og athugunar, þótt þess sje ekki brýn þörf. En hins má auðvitað geta, að lögin eru ekki heldur til fyrir gamla bændur, sem aldrei verða heylausir, heldur fyrir hina, sem ekki kunna að setja á, og slíkir menn munu vera til í hverju einasta bygðarlagi. En þótt góður ásetningur sje ekki nauðsynlegur fyrir nema nokkra menn í hverju bygðarlagi, þá sje jeg ekki, að hinir, sem er ekki þörf að setja á hjá, sjeu á nokkurn hátt móðgaðir, þótt forminu einnig sje fullnægt að því leyti að setja á hjá þeim líka.

Hv. frsm. minni hluta (E. Árna.) sagði, að það gæti verið gróðavegur að setja djarft á, en það er nú einmitt þessi „gróðavegur“, sem ekki má eiga sjer stað. Enda er það einkennilegur „gróðavegur“ að flana beint út í eintóma ráðleysu.

Einhver var það, sem sagði, að auðvelt væri að leiða forðagæslumenn á villigötur, með því að segja þeim rangt til um heyjaforða og skepnufjölda. Það held jeg að sje nokkuð mikil ímyndun, því að mjer virðist full ástæða til að ætla, að forðagæslumenn sjeu svo kunnugir í sinni sveit, að þeir viti nokkurn veginn, af hverjum megi búast við röngum upplýsingum. Þegar þeir hafa heyin fyrir augunum, geta þeir líka farið nokkuð nærri um, hvað á þau megi setja. Um skepnufjöldann gætu þeir spurst fyrir, ef nokkur grunur væri um, að rangt væri sagt til. Það mun því í fáum tilfellum þurfa að gera ráð fyrir, að þetta atriði verði að verulegum baga.

Það var alveg rjett hjá hv. frsm. minni hlutans (E. Árna.), að forðagæslumenn væru nokkuð valdlitlir; þó verð jeg að álíta, að þeir hafi svo mikið vald, er nægir, til að gera tryggilegar ráðstafanir, ef vel er að gætt. Að þeir hefðu heimild til að lóga skepnum annara, næði ekki nokkurri átt, enda mundi enginn forðagæslumaður óska eftir að vera heimilað slíkt vald. En eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi í þessu máli, þá eru þeir vanir að gera einhverjar ráðstafanir til þess að tryggja það, að fje þeirra manna, sem fyrirsjáanlegt hefir verið að myndu verða heylausir, verði nokkurn veginn borgið. Sami þm. sagði, að algengt væri, að mörg hundruð af hrossum væru sett á, án þess að þeim væri ætlað nokkurt fóður. Jeg skal ekki rengja, að þetta sje rjett, en það virðist einmitt hvetja til, að sett sjeu enn strangari ákvæði um ásetningu, ef satt er. Það má telja algerða óhæfu og benda á frámunalegt fyrirhyggjuleysi, ef mönnum líðst það að setja skepnur á engin hey, hversu sem útbeit er góð.

Hv. meiri hluti virðist leggja töluverða áherslu á skýrslugerð. Eftir brtt. á þgskj. 356 að dæma er ætlast til, að forðagæslumennirnir geri skýrslur, sem þeir sendi hagstofunni, auk lögskipaðra skýrslna. Fyrir skýrslurnar fá forðagæslumenn ekki einn eyri, og er þó síst ástæða til að íþyngja þeim með það. Því að búast má við, að nokkur tími fari til þess, og það á þeim árstíma, er venjulegast er að hafa til aukavinnu, sem alls ekki er borguð.

Mjer blandast ekki hugur um, að 2 kr., sem forðagæslumennirnir fá á dag, er oflítið, miðað við kaupgjald það, er nú tíðkast. En jeg býst við, að í hverju bygðarlagi sjeu þeir menn valdir til að starfa að þessu, sem telja ekki eftir sveitarfjelagi sínu forðagæslustarfið, þrátt fyrir það þótt kaupið sje lítið, ef þeir álíta, að það komi sveitinni að gagni.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) benti á, hvernig skuli að farið, ef hreppsbúar skirrast við að láta kosningu forðagæslumanna fara fram. Um það atriði vil jeg sem fæst segja. Þó veit jeg til þess, að í slíku tilfelli hefir sýslumaður útnefnt forðagæslumennina. Hvernig sú útnefning tókst bendir síst til þess, að betur takist til, þótt sýslunefnd færi að kjósa þá, í staðinn fyrir hreppsfjelögin, eins og nú er, því að venjulega má gera ráð fyrir því, að oddviti sýslunefnda hafi mikið að segja, og það mundu þeir að sjálfsögðu hafa, með kosningu á forðagæslumönnum, ef hún væri framkvæmd af sýslunefnd. Að sýslunefnd hafi ekkert vald haft til að útnefna þessa menn, um það atriði vil jeg alls ekki deila við háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.).

Afstaða mín til forðagæslulaganna er sú, að jeg get vel viðurkent, að gallar sjeu á þeim, en frumvörp þau, er hjer liggja fyrir, bæta síst úr þeim. Jeg hefi sagt mönnum í þeim eina hreppi fyrir vestan, sem er mjög andstæður forðagæslulögunum, að koma fram með breytingartill., sem færu í þá átt að laga gallana, en venjulega hefir viðkvæðið verið það: „Við viljum ekki hafa lögin“. Háttv. frmsm. minni hl. (E. Árna.) benti á það, að síðan lögin hefðu komið í gildi hefði komið fyrir bæði fellir og heyleysi. Þótt þetta hafi fyrir komið, er varla hægt að segja, að lögin sjeu orsök í því, heldur að þeim hafi verið illa fram fylgt í því að sporna við hvorutveggja. Að menn hafi meðal annars það á móti lögunum, að þeir vilji vera fríir við hnýsni forðagæslumanna, virðist mjer svo mikil fjarstæða, að um það þarf ekki orðum að eyða. Sama má segja um það, að þeir muni ekki kosnir sem forðagæslumenn, er hafi gaman af að gefa sig við starfinu. Þessar brtt., sem hjer eru fram komnar, fæ jeg ekki sjeð að sjeu til neinna bóta. Svo að enn hefir mjer ekki verið sýnt fram á, að þörf sje á að breyta lögunum í neinu. Að þessu sinni mun jeg því greiða atkv. á móti öllum brtt.