04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

46. mál, forðagæsla

Þórarinn Jónsson:

Jeg er búinn að gleyma mörgu, sem sagt var við fyrri hl. þessarar umræðu, og svo mun vera fyrir fleirum.

Hv. 1. þm Skagf. (M. G.) taldi þetta stórmál, og vil jeg taka undir það með honum, þar sem hjer er um það að ræða að tryggja landbúnaðinn. Þess vegna er það ekki heldur undarlegt, þótt löggjafarvaldið hafi leitað að leiðum, til þess að ná þessu takmarki, og málið orðið umtalsfrekt hjer í deildinni.

Ein breytingin, sem farið er fram á, er sú, að forðagæslumennirnir skuli vera kosnir af sýslunefndum, en áður hafa þeir verið kosnir af sveitunum. Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að ef sveitarstjórnir vanræktu að láta kjósa forðagæslumenn, þá væri ekkert við því að gera. Þá stæði maður uppi ráðalaus. Mjer er ókunnugt um, að þetta hafi nokkurn tíma komið fyrir, en dæmi munu vera til hins, að þeir, sem óánægðir eru með lögin, hafa valið ófæra menn til starfans. Jeg sje ekki, að málið sje að nokkru leyti betur komið, þó að sýslunefndir kjósi mennina. Ef það kæmi fyrir, að hreppsnefndarmenn væru ekki kosnir, þá mundi líklega vera hægt að grípa til einhvers úrræðis, og eins ætti það að vera hægt, ef um forðagæslumenn væri að ræða. Annars er leitt að heyra það, þegar lögreglustjórar telja ófært að framfylgja lögum, því að jeg álít það beina skyldu þeirra að taka það tafarlaust fyrir, ef lögum er ekki hlýtt, þótt enginn kæri yfir. Þá er að minsta kosti hægt að beita sektarákvæði laganna.

Jeg skal að eins drepa á brtt. minni hl. Það er mín skoðun, að ef þær væru samþyktar, þá væri fótunum kipt undan forðagæslunni. Ef haustskoðunin fellur burt, þá er öll forðagæsla gagnslaus. Hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) sagði, að skoðun síðari hluta vetrar væri nægileg; þá væri hægt að gera ráðstafanir til að hjálpa þeim, sem ilt útlit væri hjá. Mín skoðun er, að þá sje þvert á móti mjög erfitt að útvega hjálp. Um haustskoðunina er öðru máli að gegna. Þá er hægt að lóga fjenu og fá fult verð fyrir afurðirnar. Þetta er ekki saman berandi.

Þó að forðagæslulögin hafi ekki reynst alstaðar jafnvel, þá er það fráleitt rjett, að þau sjeu gagnslaus. Það þarf tíma til, að lög afli sjer vinsælda. Sumstaðar hafa lögin reynst mjög vel, og menn vilja ekki missa þau. Annarsstaðar hafa menn frá byrjun verið lögunum óvinveittir, og vilja fella þau eða breyta þeim svo, að þau verði gagnslaus. Jeg vona, að þetta lagist alt, ef lögin fá að standa lengur, og leyfi mjer því að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá;

(Sjá bls. 299).