14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

50. mál, stofnun landsbanka

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Frv. þetta er fyrirferðarlítið á pappírnum, og jeg vona, að það verði ekki fyrirferðarmeira í tíma þingsins. Að minsta kosti verður svo, ef aðrir álíta frv. jafnsanngjarnt og það er í mínum augum.

Flest, er jeg vildi segja, er tekið fram í ástæðunum, sem fylgja frv. Þar er drepið á, hve breytt ástandið sje síðan bankalögin voru sett 1885. Þá var Seyðisfjörður langstærsta kauptúnið á Austfjörðum. En nú eru sumir kaupstaðirnir í suðursýslunni orðnir nærri jafnokar Seyðisfjarðar, og útvegur þar snögt um meiri; t. d. er meiri útgerð bæði á Norðfirði og Eskifirði. Þá versluðu uppsveitirnar nær eingöngu við Seyðisfjörð, en nú, síðan Fagradalsbrautin kom, hefir mestöll verslunin flust til Reyðarfjarðar. Svo mikil er breytingin, sem orðin er á, að nú getur fátt mælt með að hafa Seyðisfjörð fyrir augum við stofnun útibúsins, þó að flest mælti með því, er bankalögin voru sett.

Nú hefir útibú Íslandsbanka bætt úr þörf Seyðisfjarðar og næstu sveita. Þörfin er því nú stórum meiri suður frá; það mun öllum skiljast, sem vita, hvernig landinu er háttað; fjallgarðar, sem skifta sveitunum og eru illfærir ? hluta ársins gera samgöngur á Austurlandi mjög örðugar. Það er því ekki að ófyrirsynju, að farið er fram á þessa breytingu. Ekkert ógagn yrði Norðmýlingum að henni, en hún væri til ómetanlegs gagns fyrir Sunnmýlinga og Skaftfellinga. Jeg vil ekki leggja kapp á, að neinn sjerstakur staður sje ákveðinn. Eðlilegast væri, að bankastjórnin ætti þar um atkvæði. Hún mun ekki vilja setja útibú þar, sem örðugt er um samband við Reykjavík. En það breytist ár frá ári. Eskifjörður og Norðfjörður eiga við góðar samgöngur að búa, og líklegt, að það haldist. Innsigling á Norðfjörð er örstutt og greiðfær. Reyðarfjörður hefir og verið nefndur í þessu sambandi, en þótt sá staður liggi vel við samgöngum uppsveitanna, þá eru siglingar þangað fremur litlar, fiskiútvegur nær enginn og þangað erfiðari sókn úr verstöðvum nærsveitanna en t. d. til Eskifjarðar.

Verustað bankans verður að sjálfsögðu að velja með það fyrir augum, að viðskiftamenn sem allra flestir eigi að honum greiða götu. Til þess eru útibú höfð, að ljetta undir með þeim. Ef ekkert tillit væri tekið til þeirra, þá væri ekki ástæða til að dreifa útibúunum um alt land; þá mætti leggja niður öll bankaútibú og hlíta einni bankastofnun hjer í Rvík.