14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

50. mál, stofnun landsbanka

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það hefir verið tekið fram flest, sem þarf að svara, og get jeg því leitt það hjá mjer að mestu.

Þessa kenningu mótstöðumannanna, að best sje að láta bankastjórnina ráða öllu, lít jeg á sem fáránlegustu kreddu. Hví var þá þingið að skifta sjer af stofnun útibúanna á Akureyri og á Ísafirði, og hvernig stendur þá á afskiftum þingsins af bönkunum, allar götur frá 1885? Það sjá allir, að þetta er hjegómleg ástæða; það er einmitt þingið, sem ákveður þetta, og á að gera það.

Hins vegar eru staðhættir svo eystra, að full ástæða getur verið til þess, eftir nokkur ár, að breyta til um verustað; þetta fer eftir útvegi og samgöngum, sem mjög eru óstaðbundnar þar. Fyrir þessa skuld er það einmitt, að við flutningsmenn viljum ekki binda verustaðinn, heldur að eins sýsluna.

Ofsnemt þykir mjer að benda á Reyðarfjörð nú fyrir verustað bankans, af því að þar er ekki enn svo mikill útvegur eða samgöngur þangað svo tíðar, sem æskilegt væri, þótt hins vegar sá staður sje mjög líklegur, þegar hann stækkar og skilyrðin batna.

Okkur hefir verið brugðið um hreppapólitík, einkum af hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), en hvað er það annað en hreppapólitík, að vilja hafa útibúið á Seyðisfirði, þar sem útibú er fyrir og úr aðalþörfinni bætt. Það hefir verið skýrlega tekið fram, að útibúsins er miklu meiri þörf í Suður- Múlasýslu. Annars skal jeg leyfa mjer að taka fram tvær höfuðástæður, sem fyrir mjer hafa vakað í þessu máli. Í fyrsta lagi það, að Skaftafellssýsla og syðri hjeruð Suður-Múlasýslu geta eigi haft full not banka á Seyðisfirði, vegna fjarlægðar og erfiðra samgangna. Í öðru lagi umhyggja fyrir hag bankans, sem jeg veit að er miklu betur trygður í suðursýslunni en á Seyðisfirði. Viðskifti eru miklu meiri í Suður-Múlasýslu en í Norður-Múlasýslu, útvegur o. fl., sem þar að lýtur. Hjer við bætist það, að áhuginn og kappið hjá Sunnmýlingum er svo mikið, að þeir bjóða fram stórupphæðir, í sparisjóðsfje, til þess að treysta bankann; Eskfirðingar 200 þúsund krónur og Norðfirðingar 60—80 þúsund krónur, en mjer er eigi kunnugt um, að Seyðfirðingar hafi boðið nokkur slík boð. Þetta sýnir, að mönnum er alvara. En svo er eitt enn og það er, að ef bankinn verður settur á Seyðisfjörð, þá má sennilega gera ráð fyrir því, að Sunnmýlingar haldi áfram viðskiftum við Íslandsbanka og „boycottera“ Landsbankann. Þetta tel jeg eðlilegt svar frá þeirra hendi, ef daufheyrst verður við ósk þeirra.

Mjer finst ekki þörf á nefnd í þessu máli, en nú hefir verið lagt til að vísa því til allsherjarnefndar, og get jeg þá verið því fylgjandi, þótt það tefji fyrir.