30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2641)

50. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allsherjarnefnd hefir lagt til, að frv. þetta verði samþykt óbreytt. Nefndin hefir orðið sammála um það, að einkum beri að líta á mál þetta frá tveim hliðum; önnur þeirra veit að bankanum, en hin að viðskiftamönnunum. Við höfum því fyrst og fremst athugað það, hvort bankinn muni hafa eins mikið upp úr útibúinu, verði það sett á stofn í Suður-Múlasýslu, eins og á Seyðisfirði, og við höfum komist að þeirri niðurstöðu, að líkur sjeu fyrir eins miklum viðskiftum í Suður-Múlasýslu eða jafnvel meiri. Á það ber að líta, að nokkur hluti Norður-Múlasýslu verslar á verslunarstöðum í Suður-Múlasýslu. Í Suður-Múlasýslu eru fiskveiðar miklar, svo miklar, að þær mundu veita næg viðskifti við útibú. Þess ber og að gæta, að þótt vafi gæti leikið á því, í hvorri sýslunni viðskiftalífið er meira, þá er þegar til útibú í Norður-Múlasýslu, og það liggur í hlutarins eðli, að þörfin fyrir útibú hlýtur að vera meiri, að öðru jöfnu, þar, sem ekkert útibú er fyrir. Landsbankinn er þjóðareign, og er því sjálfsagt, að hann taki tillit til þess, hvar þörfin er mest, því fremur sem þörf og líkur fyrir góðum hagnaði útibúsins fellur saman. Aftur á móti legg jeg ekki mikið upp úr að því, nokkrir Sunnmýlingar hafa lýst yfir því, að þeir muni ekki skifta við útibúið, ef það verði sett í Norður-Múlasýslu. Það er hótun, sem jeg get ekki tekið alvarlega, enda finst mjer hún varla við eigandi. Það er víst, að í Suður-Múlasýslu er mikil verslun, og mikil verslun leiðir af sjer mikil viðskifti við útibú. Í því efni er ekkert, sem mælir fremur með Seyðisfirði. Og það, að útibú er þegar til á Seyðisfirði, mælir með því, að hitt verði ekki sett þar. Þá er enn eitt atriði. Allmikið af verslun Norður-Múlasýslu er að dragast til Reyðarfjarðar. Norðmýlingar eru því ekki óskiftir í þessu máli. Í vetur sendu t. d. 15 menn, er sátu á kaupfjelagsfundi á Egilsstöðum, símskeyti til stjórnarráðsins og óskuðu þess einróma, að útibúið yrði sett á stofn í Suður-Múlasýslu. Af þessum 15 mönnum voru 8 úr Norður-Múlasýslu, fulltrúar frá 3 eða 4 hreppum. Þetta sýnir, að Norðmýlingar eru skiftir, eins og við var að búast, þar sem sumar sveitir eiga miklu hægra með að versla á Reyðarfirði en á Seyðisfirði. Enn fremur hefir nefndin átt tal við 3 menn úr stjórn Landsbankans um þetta mál. 2 þeirra mæltu með því, að útibúið væri sett í Suður-Múlasýslu, en einn mælti með Seyðisfirði. Þann 4. höfum við ekki átt tal við, en hann á sæti hjer í hv. deild, og mun skoðun hans koma fram við atkvæðagreiðsluna.

Jeg hefi ekki enn talað um nema Norður- og Suður-Múlasýslu. En auk þeirra eru 2 aðrar sýslur, sem líkur eru til að mundu skifta við útibúið. Það eru Norður-Þingeyjarsýsla og Austur-Skaftafellssýsla. Frá sýslunefndinni í Norður-Þingeyjarsýslu liggur fyrir ósk um, að útibúið verði sett á Seyðisfirði. En sú ósk vegur ekki mikið, því að Norður-Þingeyingar verða ekki svo mjög afskiftir. Bæði er það, að sýslubúar hafa mikið af viðskiftum sínum á Akureyri, og geta því skift við útibú Landsbankans þar, og auk þess er lega sýslunnar þannig, að öllu hægra er að sækja til Akureyrar en til Seyðisfjarðar. Þeir, sem samt sem áður versla á Seyðisfirði, geta þá skift við útibúið, sem þar er fyrir. Öðru máli er að gegna um Austur- Skaftfellinga. Þeir eiga töluvert hægra með að ná til útibúsins í Suður-Múlasýslu en á Seyðisfirði. Mjer finst því mega taka meira tillit til þeirra en Norður-Þingeyinga, því að þeir geta ekki snúið sjer neitt annað með peningaviðskifti sín.

Nefndin mintist líka á það við bankastjórnina, hvort hætta gæti verið á því, að erfiðara yrði með rekstur útibúanna austanlands, ef þau væru sitt á hvorum stað, hvort gæti verið að ræða um óþægilega samkepni eða annað þess háttar. Fengum við þau svör, að ekkert slíkt gæti komið til mála. Útibúin stæðu undir stjórn bankanna hjer í Reykjavík. Hjer yrði því gert út um öll atriði, sem verulegu máli skifta, og ekki hugsanlegt, að nokkurt ósamræmi gæti átt sjer stað. Fleira sje jeg ekki ástæðu til að taka fram, enda hygg jeg, að málið liggi nú ljóst fyrir öllum.