30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

50. mál, stofnun landsbanka

Bjarni Jónsson:

Það er að eins örstuttt athugasemd. Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst J.) nefndi mig og taldi mig mundu tefja fyrir framgangi þessa máls. Þar fer hann vilt. Hann og hans fjelagar tefja málið, en tillögur mínar hníga að því, að málinu verði flýtt og hert á bankastjórninni með framkvæmdir málsins. En ef bankastjórnin þverskallast við þingviljanum, þá mun þingið hafa tök á því að segja henni til syndanna, því að þingið nær alla tíð í landstjórnina og hún í bankastjórnina.

Að öðru leyti falla allar ástæður hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) um sjálfar sig, með því að þegar er kominn banki á Seyðisfjörð og ekki er vert að lengja leið manna til þess að ná í peninga; fremur ætti að stytta hana. En enga nauðsyn fæ jeg sjeð þess, að þessar peningastofnanir sitji saman; samkomulagið kann þá að verða svipað því, sem er milli þingmanna N.-M. og S. M.

Jeg hefi áður lýst yfir því, að jeg væri hlyntur því að setja bankann á Reyðarfjörð, og ef hv. 2. þm. M.-M. (Þorst. J.) kemur fram með brtt. þess efnis, mun jeg ljá henni fylgi. Til þessa liggja þau rök, að þingið hefir áður með fjárveitingum ákveðið að verslunarvegur Austfirðinga skuli liggja um Reyðarfjörð. Því má nærri geta að jafnvitur samkoma sem Alþingi muni ekki fara að leggja þann stað í auðn, sem það hefir áður verið stutt á nefndan hátt.