30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

50. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf litlu að svara í ræðu hv. 2. þm. S.-M.

(B. St.). Að gefnu tilefni skal jeg samt lýsa því yfir, að það er misskilningur hjá hv. þm. að allsherjarnefndin hafi álitið frv. lítils virði; hún taldi það að eins lítið í þeirri merkingu, að það er stutt.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir auðsjáanlega misskilið orð mín. Jeg sagði sem sje ekki, að flm. hefðu hótað að skifta ekki við útibúið, ef það yrði sett á Seyðisfirði, heldur sagði jeg, að ýmsir þar eystra hefðu hótað þessu, og þetta er rjett. Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) fanst það aðallega mæla með Seyðisfirði, að þar væri póstmiðstöð. Það er víst rjett, að landpóstar koma fyr þangað en á verslunarstaði Suður-Múlasýslu, en það gerir ekkert til í þessu efni, hvort póstur kemur 1—2 dögum fyr eða síðar. Ef eingöngu ætti að fara eftir póstgöngum og setja bankann einungis þar, sem samgöngur eru bestar, ættu þeir að vera allir hjer í Reykjavík, því að hjer eru bestar samgöngur. Eftir því, sem kunnugir menn segja, sækja Norðfirðingar aðallega til Seyðisfjarðar vegna útibúsins, sem þar er. Ef annað útibú yrði sett á suðurfirðina, t.d. Reyðarfjörð, myndu þeir sækja þangað.

Þá vildi hv. sami þingm. (Þorst. J.) vefengja það, sem jeg sagði um sýslufundarályktun úr Norður-Múlasýslu, og verð jeg því til þess að sýna, að jeg hefi farið með rjett mál, að lesa þessa ályktun upp með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Sýslunefndin leyfir sjer að skora á landsstjórnina, að hún hlutist til um, að stjórn Landsbankans komi ályktunum sínum um stofnun útibús frá Landsbankanum á Austurlandi í framkvæmd á þessu ári.“