22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2660)

50. mál, stofnun landsbanka

Forseti [af þingmannabekk]:

Þrjú undanfarin ár hefi jeg ferðast um Austfjörðu og kynst högum fólks þar og skoðunum, meðal annars í þessu máli. Og þegar jeg var þar á ferð síðast, átti jeg tal við marga góða menn og hugsandi, sem báðu mig að leggja sjer liðsyrði í þessu máli. Því lofaði jeg og það vil jeg efna.

Hingað til hefir alt þrasið — jeg vil nefna það því nafni — verið um það, hvort heldur ætti að setja útibúið niður á Seyðisfirði eða Eskifirði, eða Norður- eða Suður-Múlasýslu. Það leit svo út, sem takandi þætti í mál, að Landsbankinn hefði fleiri en eitt útibú í þessum fjórðungi. Og eftir því, sem málið er rætt nú, virðast menn vera þeirrar skoðunar, að ekki geti komið til tals, að útibúin verði fleiri en eitt. Það er það, sem jeg get ekki unað við, að þessi skoðun ríki framvegis og ráði í þinginu, án mótmæla. Jeg veit, að margir geta ekki unað við það lengur; þjóðin í heild sinni getur ekki unað því til frambúðar, að Landsbankinn, þjóðbankinn íslenski, geri ekki meira en hann hefir gert hingað til, til þess að bæta peningaverslun landsins.

Jeg kvaddi mjer ekki hljóðs til þess að mæla á móti bankaútibúi á Seyðisfirði. Mín skoðun er, að Landsbankinn eigi að setja á stofn útibú bæði í Norður- og Suður-Múlasýslu, og miklu víðar á landinu.

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) sagði það, að ætti nú að setja útibúið niður í Suður-Múlasýslu, mundi mikil deila verða um það, hvar það ætti að vera, því að hver fjörðurinn vildi hafa það hjá sjer. Jeg hygg, að hv. þm. hafi rjett að mæla því að jeg varð þess greinilega var á ferðum mínum, að hvert bygðarlagið vildi, að útibúið væri hjá sjer eða sem næst sjer.

En hvernig stendur á þessu?

Það er vert að hugsa út í það.

Eru þetta bara keipar úr fólkinu?

Eða er það brýn þjóðarþörf, sem vanrækt hefir verið?

Þetta er spurningin.

Og þar til er því að svara, að eftir þeim kynnum, sem jeg hefi haft af þessari þjóð síðustu 10 árin, hefi jeg æ komist í ljósari skilning um, að þessar kröfur eru á fullum rökum bygðar, að fá fleiri peningaverslanir. Það er að verða ein af brýnustu þjóðarnauðsynjunum hjer á landi. Og það mun sannast, að þess verður ekki langt að bíða, að þjóðin rísi upp og heimti bót á þeim vandræðum, sem mikill hluti hennar á við að búa í peningaverslunarsökum.

Peninganauðsynin í öllum viðskiftum er nú margfalt meiri en í gamla daga, og hún fer sívaxandi. Og nú þegar er svo komið, að það er jafnbagalegt að hafa strjálar peningaverslanir sem áður að hafa ekki kaupverslanir nema á stöku stað. Munum það, að peningaverslanirnar eru færri en konungsverslanirnar voru á einokunartímunum.

Ef hv. Alþingi vildi líta inn í Landsbankann og athuga viðskifti hans við þjóðina, þá mundi það koma í ljós, að bankinn, sem nú er 30 ára, er ekki, og hefir aldrei verið, banki fyrir þjóðina í heild sinni, nema að nafninu til, heldur að eins fyrir Reykjavík og Sunnlendingafjórðung. Fjarlæg hjeruð hafa harla lítið gagn haft af honum. Ef þið rengið orð mín, þá farið í bankann, og þið munuð sannfærast um, að jeg hefi rjett að mæla. En þetta var ekki og á ekki að vera tilgangur Landsbankans, að hann sje eingöngu til hlunninda fyrir Reykjavík og nærsveitirnar, að þar sje allur rjóminn sleiktur, svo að ekki verði nema farðinn eftir, handa fjarlægum hjeruðum.

Mjer dettur í hug saga, sem mjer var sögð á Austfjörðum fyrir fáum árum. Mjer finst hún vera ljós vottur um peningaástandið eða, rjettara sagt, óstandið úti um land.

Jeg kom í afskekt kauptún. Mjer voru sagðar margs konar frjettir og meðal annars sú, að hlutavelta hefði verið haldin þar í kaupstaðnum. En hvernig gekk? Enginn átti 25 aura fyrir „drætti“; fólkið varð að fara í búðina og fá innskriftarseðla til þess að draga fyrir. Þó var fólk vel efnað þar í sveit.

Þannig er víða ástatt enn í dag. Fólkið getur ekki náð annarsstaðar í peninga en hjá kaupmanninum. Hann er ef til vill eini maðurinn í hjeraðinu, sem viðskifti hefir við bankann, og fólkið verður að knjekrjúpa honum, ef það þarf á skilding að halda.

Úr því að slíkt getur átt sjer stað, að efnaðir menn verði að knjekrjúpa kaupmönnum, til þess að fá 25 aura til að „draga á tombólu“, þá hugsa jeg, að mönnum fari að skiljast, að hjer fer eitthvað aflaga. Og þeir fulltrúar þjóðarinnar, sem ekki vilja láta sjer skiljast þetta, þeir ættu að fara kringum land og spyrjast fyrir og sjá og heyra, hvers vegna þjóðin er að biðja um þessi útibú; menn verða að fara út um landið, austur á Austfirði, í þær sveitir, sem eiga lengst í þessar peningaverslanir og spyrjast fyrir þar. Þar er ekki skortur á svörunum.

Það er öldungis rjett, sem frsm. þessarar hv. nefndar (K. D.) sagði, að það þarf ekki að samþykkja þessi lög. Landsbankinn hefir heimild til að setja útibú hvar sem hann vill. En hann hefir nú verið að verkum síðan 1885, og er þó ekki kominn lengra en það, að hann hefir sett upp tvö útibú, og verði dugnaðurinn álíka mikill á næstu 30 árum, þá held jeg, að þingið og stjórnin þurfi að fara að taka eitthvað í taumana, ýta eitthvað á eftir. En það er ekki að eins á Seyðisfirði, Suður-Múlasýslu og Árnessýslu, að útibúa er þörf; þörfin er söm í hverri sýslu á landinu, og því spái jeg, að þess verði ekki langt að bíða, að kjósendur í öllum kjördæmum landsins rísi upp og krefjist þess að fá einhverja brúklega peningaverslun setta á stofn hjá sjer. Setjum svo, að þær sanngjörnu kröfur kæmu frá Húsavík, Sauðárkróki, Hvammstanga, Hólmavík, Stykkishólmi, Keflavík, Hafnarfirði, Eyrarbakka og Vestmannaeyjum. Já, því ekki Vestmannaeyjum? Jeg veit vel, hverju þeim verður svarað. Annars vegar verður þeim sagt, að þetta sjeu óþarfa keipar. En þeir, sem hafa slík svör á vörunum, þeir ættu að fara niður í bankana og sjá, hvernig þeir hafa starfað, hvaða not hvert hjerað landsins hefir haft af þeim — og svo ættu þeir á eftir að bregða sjer inn í hvert hjerað á landinu og spyrja um bankaþarfirnar þar. En þá geri jeg ráð fyrir, að sagt verði, að bankinn geti ekki fullnægt þessum kröfum; þetta sje altof mikill kostnaður fyrir hann, hann gæti tapað stórfje á því o. s. frv. Þetta er miklu alvarlegri athugasemd og þarf meiri íhugunar. Og þá er á það að líta, að viðskiftin, peningaveltan, bankaþörfin vex hröðum fetum ár frá ári — svo að það virðist sannarlega fremur gróðavænlegt en tapvænlegt að setja hjer á stofn nýjar peningaverslanir.

Jeg hygg líka, að þau útibú, sem bankarnir hafa sett á stofn, beri sig fullvel. En þó veit jeg, að margir halda því fram, að sparisjóðir úti um land geti komið í banka stað. Það er fjarri sanni. Enginn sparisjóður getur komið almenningi að líkum notum og peningaverslun, sem rekin er í bankaformi.

Það hefir verið sagt um sparisjóðina, að þeir þyrftu að komast undir betri stjórn, betra eftirlit. Jeg tel það nú auðsætt, að einmitt með þessari breytingu gæti því orðið framgengt. Sparisjóðirnir myndu þá komast í sambönd við útibúin og þar af leiðandi komast undir traustari stjórn. Enn fremur er að líta á það, að þótt sparisjóðirnir hafi vaxið upp í reiðuleysi og eftirlitsleysi, þá hafa ekki orðið nein brögð að því, að þeir hafi beðið stórhnekki. Og hví skyldu ekki útibúin, þótt lítil væri, geta borið sig úti um landið, og það miklu fremur en sparisjóðirnir? Það er satt, að menn eiga einlægt mikið undir þeim, sem trúað er fyrir verslunarsökum, en sannarlega ekkert meira undir þeim, sem menn trúa fyrir að versla með peninga, heldur en hinum, sem er trúað fyrir öðrum verðmætum varningi.

Hjer er því ekki hægt að slá mann af laginu með því að benda á sparisjóðina, eða segja, að þetta sje óvinnandi verk vegna áhættu, nje heldur með því, sem oft er gripið til, þegar einhverju þarf að koma fyrir kattarnef hjer á landi, að segja, að svona hafi þeir það ekki í Danmörku! Þótt svo væri, hvað varðar okkur um það? Ef við lítum til Ameríku, þá er þar ekki reistur svo lítill bær, að ekki sje þegar kominn upp banki. Peningaverslunin er þar altaf talin ein fyrsta og helsta hagsmunaþörf almennings,

En ef við eigum að koma upp heilbrigðri peningaverslun fyrir landið, þá verður að velja til þess menn með fullu viti, bæði heiðarlega og ábyggilega menn, en ekki neinn af þessum nafntoguðu mönnum, sem einlægt ganga með opinn munninn, bíðandi eftir því, að þing og stjórn eða einhverjir, sem eitthvað geta, stingi einhverjum bita upp í þá.

Því segi jeg það, jeg hygg að Sunnmýlingum komi það illa, ef þessu verður stungið svo á hilluna, að þeir hafi jafnlitla von og áður um það að geta bætt úr þessari þörf sinni. Þörfin er afarmikil á útibúi í þeim landsfjórðungi. Og þótt það sje öldungis rjett, eins og hv. frsm. (K. D.) sagði, að Landsbankinn hefði heimild í lögum til þess að setja upp útibú á Austfjörðum, þá geta Austfirðingar naumast vænt neins annars en kæruleysis og hirðuleysis frá bankans hendi, ef þetta verður látið sitja svona.

Jeg hefði því kosið, að þessu máli væri vísað til stjórnarinnar með einhverri frekari áskorun um það að skerast í leikinn og styðja að því, að bankinn sinni meir þessari þjóðarnauðsyn en hann hefir gert.

Jeg skal svo ekki tefja hv. deild lengur. En því spái jeg, að á hverju komandi þingi verði meir rætt um þetta mál, og því þá betur sint en nú að þessu sinni.