22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (2663)

50. mál, stofnun landsbanka

Jóhannes Jóhannesson:

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) vildi líta svo á, að jeg hefði talið það hringlandaskap, sem gerðist á þinginu árið 1912. En hv. þm. (E. P.) verður að gæta þess, að það, sem gerðist og skeði á þinginu 1912, var ekki það, að þingið hefði skift skoðun um það, hvar útibúið skyldi sett, heldur hitt, að það vildi rýmka vald bankastjórnarinnar í því efni, en frv. það, sem hjer liggur fyrir, fer í þveröfuga átt, og því var það megnasti hringlandaskapur af þinginu að láta það ganga fram.

Mjer kemur það dálítið undarlega fyrir sjónir, að þessir tveir hv. þm., hv. 1. þm. Rang. (E. P.) og hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), báðir ókunnugir, annar að sunnan, en hinn að norðan, vilja fara að leiðbeina stjórninni um það, hvar hún eigi að setja útibúið. Með öðrum orðum, þeir álíta sig bæra um að skera úr því, hvar útibúsins sje mest þörf á Austurlandi. Það virðist vaka fyrir þeim, að bankastjórnin og landsstjórnin hafi tekið þessa ákvörðun sína alveg út í bláinn. En það er síður en svo. Það hefir verið leitað álits sýslunefndanna um málið, og austfirska blaðið hefir auk þess flutt margar greinar um málið; þannig hefir stjórnin, að fengnum ítarlegum upplýsingum um öll atriði, er máli skifta, og að þeim athuguðum, komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að setja útibúið á Seyðisf., jafnvel þótt annað útibú væri þar fyrir, enda væri það einkennilegt, ef annað lögmál ætti að gilda um Austfjörðu, fremur en hina aðra landsfjórðunga, því að benda má á, að bæði á Ísafirði og Akureyri hefir Íslandsbanki sett upp útibú, og síðar hefir Landsbankinn sett þar útibú sín engu að síður.

Loks vil jeg geta þess, að jeg hygg, að það sje ekki rjett, að hv. Nd. sje yfirleitt farin að hallast að þeirri skoðun, að útibúið eigi ekki að vera á Seyðisfirði. Jeg skal t. d. benda á, að þetta frv. var ekki samþykt með meiri hluta atkvæða í hv. Nd. Það marðist í gegn með 13 atkvæðum, og er það rjettur helmingur neðri deildar manna, þegar hún er fullskipuð.

Jeg álít heppilegast að vísa þessu máli til stjórnarinnar, en bera svo fram þingsályktunartillögu, sem legði áherslu á það, að útibú yrðu stofnuð af meiri áhuga eftirleiðis en verið hefir.

Jeg nefndi ýmsa staði í Suður-Múlasýslu í þessu sambandi, svo sem Norðfjörð, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð og auk þess Vopnafjörð, sem er fyrir norðan Seyðisfjörð. En til þess, að aðalbankinn geti haft nægilegt eftirlit með þessum útibúum og duglega umsjón, verður hann að hafa aðalútibú sitt fyrir Austfirði á Seyðisfirði.

Jeg verð því að fylgja tillögu nefndarinnar, en get hins vegar vel fallist á þingsályktunartillögu síðar, er skoraði á stjórnina að sjá um, að þetta útibú kæmist sem fyrst á.

Þar sem dagskrá háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) fer í sömu átt og tillaga nefndarinnar, gerir hún hvorki til nje frá. Bæði bankastjórn og landsstjórn, hafa að yfirveguðum öllum málavöxtum, ákveðið að setja útibúið á Seyðisfjörð, og óttast jeg eigi, að þær fari að sýna neinn hringlandaskap í málinu.