22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (2665)

50. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Það er síður en svo, að jeg vilji hefja mótmæli gegn hinni ítarlegu ræðu hæstv. forseta. Jeg get fyllilega viðurkent í aðaldráttunum rjettmæti þess, sem hann sagði um peningaverslanir, og að nauðsyn bæri til, að sem hægast verði að ná til þeirra. En hitt verð jeg að taka fram, að hagur Landsbankans verður að batna að stórum mun til þess, að þetta geti komist í framkvæmd. Að liðin eru 30 ár, og ekki eru fleiri útibú komin á fót, síðan Landsbankinn var stofnaður, er því einu um að kenna, að þingið hefir ekki sjeð bankanum fyrir nægilegum kröftum. Því að það þarf sannarlega mikla krafta og mikla aðhlynningu að bankanum, ef unt á að vera að setja útibú á fót á svo mörgum stöðum, sem hæstv. forseti talaði um. Hitt er annað mál, sem hann drap einnig á, að gott væri, ef sparisjóðirnir væru styrktir, þó að Landsbankinn geti ekki sett útibú víða. En þetta sparisjóðamál hefir áður verið fyrir þinginu og töluverð barátta orðið um það. Ýmsir hafa verið andvígir því að nota sparisjóðina sem lánstofnanir, en viljað leggja aðaláhersluna á hitt, að innieignir manna væru sem best trygðar. Hæstv. forseti hjelt, að útibú frá bönkum hlytu að geta borið sig eins vel og sparisjóðirnir, sem hafa verið reknir með ótrúlega litlum kostnaði. Jeg get ekki fallist á, að þetta sje rjett. Einstakir menn hafa lagt á sig að standa fyrir sparisjóðunum og haft lítið í aðra hönd fyrir, en við slíku er ekki hægt að búast, þegar um reglulegar bankastofnanir er að ræða.

En svo mikið rjettmæti, sem var í orðum hæstv. forseta, þá vil jeg þó benda á, að þau lutu ekki að því, sem á dagskrá er nú. Nú er einungis um eitt ákveðið útibú að ræða; þingið á að skera úr því, hvar það skuli standa. Og álit nefndarinnar laut að þeirri spurningu. Hún leit svo á, að þingið ætti að vera algerlega óhlutdrægt í því máli, og fanst eðlilegast, að það kæmi til þeirra kasta, sem betri skilyrði hafa til þess að dæma um þetta, en þingmenn hvaðanæfa af landinu. Háttv. 2. þingm. Húnv. (G. Ó.) kannaðist við, að skoðun nefndarinnar væri rjett, en honum fanst tómlátlega gengið frá frv., ef því væri einungis vísað til stjórnarinnar, og hann leit enn fremur svo á, að fyrst að þessu ákvæði hefði verið breytt á þinginu 1912, þá mætti alveg eins breyta því nú; En aðgætandi er, að breytingin, sem ætlast er til að verði nú, er í raun og veru engin frá 1912. Það er engin ný heimild gefin, sem ekki er fyrir í lögunum. Og mjer finst ástæða til þess að benda mönnum á að fara varlega í þetta mál. Fyrst var ákveðið, að útibúið skyldi vera á Seyðisfirði, en síðan á Austurlandi, en ekkert nánara tilgreint um staðinn. Nú er loks ætlast til, að það verði Suður-Múlasýsla, sem annars er alls ekki neitt lítill blettur.

Eins og jeg hefi bent á var það hugsun nefndarinnar, að þingið ætti að vera algerlega óhlutdrægt í þessu máli. Jeg get varla sagt með vissu, að jeg viti, hvaða skoðun einstakir nefndarmenn hafa á því, hvar útibúið verði best komið. Og jeg treysti mjer ekki til að halda fram þeim skoðunum, sem jeg kynni að hafa á því máli, gegn kunnugum mönnum.

Jeg get ekki lýst neinu yfir fyrir nefndarinnar hönd um dagskrártillögu hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) Hún hefir ekki getað talað sig neitt saman um hana. En jeg fyrir mitt leyti fæ ekki sjeð, að neitt sje í henni annað en það, sem felst í tillögu nefndarinnar um að vísa málinu til stjórnarinnar. Í því felst að sjálfsögðu, að stjórninni er ætlað að taka tillit til alls þess, sem dagskráin getur um. En að því leyti sem dagskráin kynni að fara út fyrir tillögur nefndarinnar, og þar af leiðandi verða hlutdræg, eins og hv. 2. landsk. þm. (S. E.) virtist skilja hana, hygg jeg rjettast að hafna henni. Nefndin leggur ekki áherslu á neitt annað en að deildin sje algerlega hlutlaus, og taki ekki fram fyrir hendur þeirra manna, sem betri skilyrði hafa til þess að dæma um málið.