15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

4. mál, samþykkt á landsreikningum 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

Háttv. nefnd hefir gert athugasemd um hina tvöföldu dagsetningu og telur hana handhæga. Jeg verð að vera á andstæðri skoðun; mjer finst það mjög óviðfeldið, að upphæðirnar komi inn miklu seinna en þær eiga að koma, og eiga þá alls ekki að teljast með þess árs tekjum, heldur útistandandi.

Í 49. lið segir nefndin um innheimtur, að rjettast sje, að landsstjórnin ráði, hver gangskör skuli gerð um innheimtur. Auðvitað ræður landsstjórnin því, en yfirskoðunarmenn hljóta að hafa rjett til þess að áminna landsstjórnina um innheimtur; til hvers mundu þeir annars settir? »Þess er að sjálfsögðu vænst, að þess sje vandlega gætt, að landssjóður verði eigi fyrir halla að óþörfu.« Það er einmitt þetta, sem yfirskoðunarmönnum þótti ástæða að brýna fyrir stjórninni.

Í 67. lið virðist mjer kenna misskilnings hjá nefndinni. Yfirskoðunarmenn töldu óhentugt, að landsfjehirðir væri í Landsbankanum, heppilegra, að hann væri í stjórnarráðinu, en laus við bankann. Þetta er fyrirkomulagsatriði, sem nefndin hefði átt að taka meira tillit til.

Um 119. lið skal jeg fyrir mitt leyti taka það fram, að jeg er þakklátur stjórninni fyrir þá greiðslu. Mín skoðun er sú, að þegar starfsmenn landsins verða fyrir slysum á embættisferðum, þá beri landssjóði að greiða skaðabætur. Þetta er nú komið á þann rekspöl, að vænta má að verði að reglu.

Jeg er ósamþykkur háttv. nefnd um 123. lið, ferðakostnað verkfræðinga. Það er rangt að telja ferðakostnað vitamálastjóra eða annara vitamanna með byggingarkostnaði vitanna. Þingið er leitt á glapstigu með slíkri skilagrein. Þegar þingið einu sinni hefir ætlað þessum mönnum ferðakostnað, þá á þar til að telja alt, sem til þess heyrir. Það er auðvitað ekki hægt fyrir einstaka þingmenn að athuga ferðakostnaðinn, af því að þeir geta ekki sjeð alla þá reikninga, sem þar fylgja.

Þá kem jeg að Hvanneyrarskólanum. Það er leitt, að nefndin skuli ekki hafa farið eftir tillögu yfirskoðunarmanna þar. Með þessu er slíkum stofnunum gefinn laus taumurinn, svo að forstöðumenn geta farið að eins og þeir vilja. Þetta þótti yfirskoðunarmönnum rjett að víta og töldu stjórnina geta veitt umframgreiðslu, en nota ekki fje til annars en það er veitt. Hjer er fje, sem veitt er til verklegs náms, sem ekki mun vera ofmikið, notað til alls annars, í stað þess að sækja um umframgreiðslu. Mörg dæmi eru þessu hliðstæð, svo að jafnvel starfslaun eru notuð til annars en þau voru veitt. En jeg skal ekki fara nánara út í það, með því að nefndin gefur ekki tilefni til þess.