17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

51. mál, forðagæsla

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mig furðar á því, að frv. þetta skuli koma fram, án þess að um leið komi frá flytjendum þess fyrirheit um eitthvað í sömu átt. Jeg bað um orðið til þess, að rödd flm. (E. J.) væri ekki sú eina, sem fram kæmi af hálfu þeirra manna, er um forðagæslumálið geta dæmt af þekkingu og reynslu. Jeg hefi fylgt málinu með athygli frá því fyrsta, og hefi að baki mjer mikla reynslu um það, að hverju haldi forðagæslulögin hafa komið í einu af mestu fjárræktarhjeruðum. landsins. Og mjer blandast ekki hugur um, að lögin hafa þar gert mikið gagn. En jeg er ekki heldur blindur fyrir því, að segja má um þessi lög, eins og hver önnur, að „svo eru lög sem hafa tog“. Þegar menn leggjast á móti einhverjum lögum, og eru samhuga um það að níða þau niður, þá er gagnið tvísýnt. Ef forðagæslulögin hafa ekki orðið að neinu gagni í einhverju hjeraði, þá er það því að kenna, að menn hafa ekki viljað hagnýta sjer þau rjettilega eða fara eftir þeim. — Gagnið, sem lögin hafa gert í þeim hjeruðum, sem jeg er kunnastur, er aðallega tvenns konar. Fjárræktin hefir aukist að mun þessi ár, sem laganna hefir notið við, og reynslan hefir líka sýnt, að menn hafa verið betur undir búnir en áður að mæta hörðum vetri.

Þetta er mín reynsla, og jeg veit, að fleiri hafa líka reynslu. Fyrir því vildi jeg ekki, að hv. flm. (E. J.) væri einn til frásagnar hjer í deildinni.