17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2679)

51. mál, forðagæsla

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætla ekki að leika mjer hjer að tímanum, eins og mjer finst að hjer sje verið að gera. (E. A.: Maður verður þó að bera af sjer sakir). Þetta frv. er að mínu áliti varla þess vert, að um það sje rætt. Það eru aðallega 3 ástæður, sem eru færðar gegn forðagæslulögunum og taldar að gera þau óhæf. Í fyrsta lagi, að forðagæslumennirnir sjeu valdlausir, í öðru lagi, að skoðanirnar sjeu móðgandi fyrir bændur, og í þriðja lagi, að ekkert vit sje í þeim.

Við höfum nú haft þessi lög í fleiri ár, og ýmsir verið óánægðir með þau, altaf kvartað undan því, að mennirnir væru valdlausir. En þegar til þingsins kasta hefir komið að breyta þessum ákvæðum, hefir það ávalt orðið ofan á, að löggjafarvaldið gæti ekki gengið lengra, án skerðingar á eignarrjetti manna. En þetta atriði getur náð fullu gildi, ef menn að eins vilja, án þess að sterkari ákvæði sjeu. Öll lög, sem þjóðin vill hafa, styður hún. Ætíð þegar vanda ber að höndum er það skylda að leita álits sem flestra, og ef bestu menn geta ekki lagt góð ráð og ráðið til þess, sem betra er; þá er það ekki hægt. Hjer sýnir það sig, að menn vilja ekki hlýða lögunum; menn vilja ekki hafa forðagæslulögin, og þær raddir heyrast jafnvel, að skoðanirnar hjá bændum sjeu móðgandi. Menn vilja altaf vera sjálfum sjer nægir, en sagan sýnir, að þeir geta það ekki, og reynslan sýnir, að þessir sömu menn, sem þykjast ofgóðir til að þiggja ráð af öðrum, hafa stundum orðið fyrir felli.

Eftir forðagæslulögunum ættu bestu menn í hverri sveit að vera kosnir til að skoða, menn, sem hafa tiltrú og alveg víst er um, að geta betur ráðið fram úr vandræðum en aðrir. Það er þess vegna bændum sjálfum að kenna, ef lögin eru brotin. Það kann að vera hægt að segja, að þessar fyrstu skoðanir hafi verið óábyggilegar, en þegar sömu mennirnir eru skoðendur ár eftir ár, verða áætlanir þeirra ábyggilegar. Þeir, sem ekki vilja líta á það, geta aldrei sannfærst um það gagn, sem lögin geta gert, ef samvinnan er góð.

Mjer er kunnugt um það, að áður en forðagæslulögin gengu í gildi höfðu margar. sveitir samtök um líkar aðferðir. Þar hafa menn ekki ímugust á lögunum, enda hafa þau ekki reynst þar vel, heldur ágætlega, og eru mjög vinsæl. Þar sem jeg þekki til hafa þau líka haft stórmikla þýðingu.

Það er eitt, sem er allra eftirtektarverðast við frv., og það er, að það skuli vera komið fram einmitt nú. Nú hefði jeg talið það sjálfsagða skyldu stjórnarinnar að brýna fyrir mönnum að fara sem best eftir lögunum. Ef enginn útflutningur yrði á landbúnaðarafurðum í haust, og þegar víst, að enginn útflutningur verður á hrossum, grasbrestur og lágt verð, þá hefir aldrei um langan aldur verið jafnmikil freisting fyrir menn að setja ógætilega á sem einmitt í haust. Einmitt þá koma raddir um að fella þessi lög úr gildi, sem aldrei hefir verið eins mikil þörf á eins og nú.

Jeg ætla svo ekki að tala meira um þetta mál, álít frumvarpið ekki þess vert, og vona, að hv. deild geri því fljót skil.