17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

51. mál, forðagæsla

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það, sem jeg sagði áðan, hefir ekki mætt miklum mótmælum, nema hjá hv. flm. (E. J.). Hann tók fram, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefði talið hjeraðasamþyktir gera meira gagn en forðagæslulögin. Það er engin sönnun fyrir því, að Þingeyingar álíti forðagæslulögin ekki hafa gert gagn, heldur að þau sjeu góð með öðru góðu.

Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) og fleiri hafa sömu reynslu og jeg, sem sje, að lögin geri gagn, en hv. flm. (E. J.) og aðrir neita því. Úr því að lögin gera sumstaðar gagn, og það er órannsakað, hve mikið gagn þau gera, væri það nokkuð mikill ábyrgðarhluti fyrir hv. deild að láta þetta frv. fá framgang; þótt eitthvað annað sje á seiði í staðinn, veit hv. deild ekki, hvort það verður samþykt. Jeg held, að rjett væri að láta landbúnaðarnefnd rannsaka málið.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) staðfesti þá umsögn mína, að svo eru lög, sem hafa tog. Hann sagði, að örðugt væri að fara nærri um heybirgðir manna. Jeg þykist hafa reynslu fyrir því úr minni sveit, að hægt sje að fara mjög nálægt því rjetta, ekki síst með margra ára reynslu. Honum þótti óviðurkvæmilegt að senda galgopa og uppskafninga til gamalla og gætinna bænda, en það sannar það eitt, að lögunum er illa framfylgt, þar sem slíkt ætti sjer stað, og er vonandi, að slíks sjeu fá eða engin dæmi. Jeg get bent á mörg dæmi upp á, að bestu menn sveitarinnar eru valdir til forðagæslu. (E. J.: Þeir vilja ekki taka það að sjer). Jú, einmitt bestu mennirnir bera svo hag sveitarfjelagsins fyrir brjósti, að þeir taka starfið að sjer, hvað sem borguninni líður.

Ályktunarorð mín verða þá þau, að rjett sje að fella frv. þegar, og vísa því ekki til 2. umr. nje nefndar, því að jeg álít ekki rjett að eyða meiri tíma til þessa máls, eins og það er vaxið.