17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2683)

51. mál, forðagæsla

Björn Stefánsson:

Skal lofa því að vera ekki margmáll um þetta frv. En þó einkum gera mjer far um, nú sem endrarnær, að endurtaka ekki það, sem aðrir hafa áður sagt.

Efast ekki um, að allir, sem hjer hafa talað um þetta mál, hafi lýst rjett hugsun manna til forðagæslulaganna og gagnsemi þeirra, eftir því sem þeir til þektu. En sje nú svo, að allir hafi farið með rjett mál, hvað sannar þá þetta? Það sannar ekkert annað en það, að sumsstaðar er gagn að forðagæslulögunum, en sumsstaðar ekkert, og jafnvel sumsstaðar ógagn. En sje nú svo, þá er mjer spurn, hví á að neyða lögunum upp á þá menn, sem telja þau vera til ógagns og hafa reynt þau að því að vera það? Það tel jeg alveg rangt. Þess vegna styð jeg það, að málið verði sett í nefnd, í von um, að hún sjóði upp úr þessu frumvarpi heimildarlög, svo að þeir geti losnað við lögin, sem telja þau vera til engra nota, því að lögin koma aldrei að notum þar, sem menn eru þeim mótfallnir og telja þau gagnslaus, því að þar eru þau í reyndinni ekkert annað en nauðungarskattur á sveitarfjelögum. Sumir tala um að galgopar sjeu gerðir að forðagæslumönnum. Þetta mun vera rjett. En að menn setja slíka menn til að gæta laganna mun vera af því, að þeir meta lögin einkis, vilja einungis gera afsökun sína, kjósa því þá mennina, sem eru fljótastir að hlaupa um sveitina, til að gera þessa málamyndaskoðun og kosta sveitarfjelagið minst. Þá vil jeg heldur losa menn við byrðina að öllu leyti.

Hv. þm. Dala. (B. J.) tók það rjettilega fram, að nú væru hættutímar og taldi því ástæðu til að afnema ekki lögin, svo að menn freistuðust síður til að setja illa á. Þess vegna er einmitt ástæða til að una ekki við gagnslítil pappírslög, heldur fullkomin brýn ástæða til að setja nú lög, sem tryggja búpening bænda fyrir fóðurskorti í hörðustu vetrum, og að byrja með því að afnema þessi gömlu og gagnslausu lög, býst jeg við að væri einmitt það, sem mest hvetti, því að tilfinningin fyrir þörfinni á því að búa hjer tryggilega um mundi þá fremur knýja menn til að láta ekki við svo búið standa, heldur semja ný lög og vanda vel til þeirra. Hjer liggja fyrir ákveðnar tillögur um þetta mál frá búnaðarþingum. Sömuleiðis liggja fyrir tillögur í þessu máli frá námsskeiði, sem haldið var að Eiðum í vetur. Þessar tillögur þarf að athuga, og því vil jeg fá málið sett í nefnd.