18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Flm. (Jón Jónsson):

Jeg skal játa að það er ekki gott að koma fram með frv. um skiftingu læknishjeraða, og rjettara að láta slíkar uppástungur koma frá landlækni, en það geta þó verið til undantekningar, þegar sjerstakar ástæður eru fyrir hendi. Og nú eru það einmitt sjerstakar ástæður sem hafa knúið okkur þingmenn N.-M. til að koma fram með þetta mál. Við hefðum látið okkur lynda núverandi skiftingu, ef læknisbústaðurinn í Hróarstunguhjeraði hefði ekki verið fluttur til Borgarfjarðar. Sýslunefnd N.-M. rjeð þessum flutningi, en nú var svo skrítilega ástatt, að einn hreppur úr S.-M. er í þessu hjeraði, og sýslunefnd S.-M. taldi sjer misboðið, af því að hún var ekki höfð með í ráðum. Kom málið svo fyrir sameinaðan sýslufund beggja sýslna, og var þar mótmælt með meiri hluta atkvæða ályktun sýslunefndar N.-M. um bústað læknisins. En sá fundur reyndist ólögmætur. Við þetta situr. Við höfum verið í vandræðum með þetta mál, því að mikill hluti Fljótsdalshjeraðs er mjög illa settur með lækni; má eiginlega segja að hann sje hjer um bil læknislaus, því að leiðin til læknis er svo afarlöng. Það kom til tals, að læknisbústaðurinn á Brekku yrði fluttur út á mitt Hjerað, en nú er búið að reisa sjúkraskýli að Brekku, og því eru annmarkar á flutningnum. Ef læknissetrið yrði flutt sem næst Lagarfljótsbrú, yrði að reisa þar bæði læknisbústað og sjúkraskýli. Hart væri að segja lækninum á Brekku að flytja burt þaðan, sem hann hefir nú búið um sig, og ósýnt, hvernig gengi að fá hentugan bústað um mitt hjeraðið, við Lagarfljót. Jeg býst líka við, að þar yrði að hafa aðstoðarlækni, vegna sjúkraskýlisins, ef einn hjeraðslæknir yrði fyrir alt Fljótsdalshjerað með Jökuldal. Þetta búumst við ekki við að geti gengið, og förum því með þessu frv. fram á, að hjeraðinu verði skift. Við höfum litið svo á, að ekki sje hægt annað en að snúa sjer til hv. Alþingis með þetta mál. Borgarfjarðarhreppur hefir altaf verið illa settur með lækni, og mælir því mikil sanngirni með því að gera hann að sjerstöku læknishjeraði, enda eru þar alveg sjerstakir staðhættir fyrir hendi. Vitaskuld er fátt fólk þar, en gera má ráð fyrir, að ef læknir væri kominn þangað, myndi hann sætta sig við það, og ekki nema sanngjarnt, að sveitarfjelagið greiddi honum launaviðbót, svo að hann yndi við embættið. Vegna erfiðleika við ferðalög er læknirinn í Borgarfirði nú sóttur afarlítið upp á Hjerað, þótt það kunni að breytast. Sumir Hjeraðsbúar hafa venjulega sótt lækni til Vopnafjarðar, en aðrir að Brekku.

Náttúrlega stæði það næst landlækni að hlutast til um þetta mál, en af því að hann hefir ekki gert það, sáum við ekki önnur ráð en snúa okkur til þingsins.

Jeg vil svo leyfa mjer að stinga upp á, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, eins og öðru samskonar máli, sem er áður komið.