18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2692)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Matthías Ólafsson:

Jeg vil gera grein fyrir, hvers vegna jeg greiði atkvæði með því, að þessu máli sje vísað til 2. umr. Jeg vil ekki gera því lægra undir höfði en öðru samskonar frv., sem áður er komið fyrir þingið. Jeg álít, að hvorugt þessara frv. eigi að fá framgang, því að afleiðingin verður sú, að svo og svo margar beiðnir koma um skiftingu á öðrum hjeruðum. Það er satt, að fólk vill fá fleiri lækna, en þá verður jafnframt að leggja á sig nýja skatta. (Þorst. J.: Það leiðir af sjálfu sjer). Það er einmitt það, að ef fólkið heimtar, að fjölgað sje embættismönnum, verður það líka að borga þeim. Hitt er annað mál, hvort ekki er betra að fjölga ekki, en breyta takmörkum hjeraðanna. Jeg býst við, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, leiti upplýsinga hjá þeim, sem kunnugastur mun vera þörfinni á að fjölga hjeruðum, sem sje landlækni.

Ef ætti að uppfylla óskir allra þeirra, sem vilja fá læknishjeruðum fjölgað, yrði niðurstaðan sú, að enginn læknir vildi sækja um svo lítil og tekjurýr hjeruð. Flm. þessa frv. fara svo fram á, að lækninum, sem tekið sje frá, verði bættur upp tekjumissirinn. Slíkt hefi jeg aldrei heyrt fyr.