25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg get verið mjög stuttorður og látið mjer nægja að vísa til nál. á þgskj. 127. Frv. fer fram á þá mjög varhugaverðu breytingu, að skifta læknishjeraði og gera úr því 2 hjeruð svo lítil, að þar sje engum lækni lífvænlegt. Afleiðingin gæti því orðið sú, að enginn læknir fengist í þessi smáhjeruð, og væri þá sannarlega lífi manna ekki betur borgið, eftir en áður, ef enginn hefði skyldu til að vitja sjúklinga þar.

Annars telur nefndin það mjög athugaverða braut að búta sundur eitt og eitt læknishjerað í landiuu af handahófi og fyrirhyggjuleysi. Væri þá nær að taka það mál frá rótum, ef brýn nauðsyn ber til að breyta, frá því sem nú er. Og eigi að nást læknar í þessi smáhjeruð, þá er óhjákvæmilegt, að landssjóður greiði þeim hærri laun en læknum eru nú alment goldin.

Í áliti sínu hefir nefndin bent á leið, sem fær væri í þessu máli, að flytja læknisbústað Fljótsdalshjeraðs frá Brekku að Lagarfljótsbrú og auka við það einhverjum hluta Hróarstunguhjeraðs, eftir því sem hentast þykir. Nefndinni sýnist rjett, að landsstjórnin og hlutaðeigendur athugi þetta og undirbúi í nánustu framtíð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Nefndin leggur það öll til, að frv. verði felt.