31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Bjarni Jónsson:

Mjer þykja það hálfundarleg frv., sem verið er að koma fram með, þar sem ætlast er til, að farið verði að setja á stofn skóla hingað og þangað um landið, sjómannaskóla stundum, þar sem þó er vitanlegt, að nægilegt er að hafa einn skóla fyrir alt landið, til þess að menta þá skipstjóra, sem þarf á íslensk skip. Þótt það liggi ekki beint fyrir til umræðu, þetta með sjómannaskólana, þá finst mjer það svo skylt, að jeg get ekki stilt mig um að drepa á það. Það er undarlegt, að menn skuli vilja vera að búta skólana í sundur, og hafa þá á mörgum stöðum, þar sem það hlýtur þó að margfalda kostnaðinn við að halda þá, og erfitt er að gera þá alla svo úr garði, að þeir geti veitt jafnfullkomna fræðslu. Svo er það líka með þessa „mótorvjelstjóraskóla“. Orðið hlýtur nú fyrst og fremst að hneyksla. Mig furðar á því, að háttv. flm. (M. Ó.) skuli ekki hafa reynt að sleppa því og setja eitthvert viðráðanlegt, íslenskt orð í staðinn. Jeg vona, að hann geri það við síðari umræður þessa máls, því að mjer er kunnugt um, að hann er vandur að máli og smekkmaður á íslenska tungu. — Jeg hygg, að það hefði verið allsendis nægilegt að hafa þennan vjelstjóraskóla einn, og þá að sjálfsögðu að setja hann í samband við skólann fyrir vjelstjóra á eimskipum, sem þegar er til hjer í Reykjavík. Jeg tel engan vafa á því, að best færi á því að sameina alla vjelfræðikenslu í eitt. Það hlýtur að verða nokkuð svipuð fræðigrein, þótt vjelarnar sjeu mismunandi. Þessar olíu- og benzínvjelar eru nú orðnar svo tíðar, að það er nauðsynlegt, að allir skipstjórar kunni með þær að fara, auk þess sem ekki mun verða hjá því komist, að hafa sjerstaka vjelstjóra á öllum stærri skipum, sem þessar vjelar hafa. Þær eru nú farnar að verða svo dýrar, að mikið er í veði, ef þeim er illa stjórnað. Ef svo bættist við, að hjer færu að tíðkast skip með Diesel-vjelum, sem eru mjög stórar og dýrar, þá verður enn vandfarnara með þær. Jeg sje því, að nauðsynlegt er að menta vjelstjóra, sem stjórna eiga öllum þessum vjelum, hvað sem þær nú nefnast og hverju sem þær brenna. Jeg vildi þess vegna styðja að því, að fenginn væri sjerstakur kennari, — fleiri en einn, ef þess gerist þörf — og útveguð nauðsynleg áhöld til vjelstjórakenslunnar og allur útbúnaður, sem þar að lýtur, en að kenslan væri þá sett í samband við vjelstjóraskólann í Reykjavík, og að þá væru um leið hafðar verklegar æfingar í meðferð vjelanna. Það er auðvitað rjett, að ekki verður komið á fullkominni kenslu þegar í stað, svo að fyrst um sinn verður að bjargast við einhvern bráðabirgðaundirbúning. En væri þá ekki einmitt ráðlegast að verja þeim tíma til að undirbúa vjelstjórakensluna hjer í Reykjavík. Jeg get ekki álitið það ofmikið haft fyrir þeirri atvinnu, sem vjelstjóramentunin veitir aðgang að, þótt menn verði að sækja og kosta sig við einn og sama skólann fyrir alt landið. Til samanburðar við það má benda á, að það hefir ekki verið talið eftir lærðu mönnunum að sækja alla sína mentun til Reykjavíkur eða lengra. Þeir verða að gera sjer að góðu að sitja fyrst 6 vetur í mentaskóla, sem til skams tíma að öllu leyti, og enn að hálfu leyti, er að eins til í Reykjavík. Auk þess verða þeir að dvelja alt að því jafnlengi eða jafnvel lengur við háskóla, sem hvergi er að fá nema í Reykjavík eða þá erlendis. Eftir alt þetta fá þeir svo aðgang að atvinnu, sem oft og tíðum er ekki betur borguð en staða vjelstjóranna eða skipstjóranna, sem hjer ræðir um. Stundum ekki nærri eins vel borguð. Jeg get því ekki talið eftir sjómönnunum að sækja mentun sína til Reykjavíkur, ef landið leggur þeim til skóla þar. Að landið eigi yfir höfuð að tala að láta sjómönnum sjermentun sína í tje, byggist eingöngu á því, að skipstjórum er trúað fyrir mannslífunum, og mannslífin eru svo mikils virði. Þingi og þjóð ber því að gera sitt til að girða fyrir það, að mannslífin glatist fyrir handvömm, vanþekkingu eða klaufadóm stjórnendanna. Til þess að tryggja mannslífin á landið að veita skipstjórum og vjelstjórum mentun. Að öðru leyti er því opinbera ekki skyldara að búa þá undir lífsstarf sitt en t. d. trjesmiði, skósmiði eða járnsmiði, og veit jeg ekki til, að farið hafi verið fram á, að landið

stofnaði skóla handa þeim. — Nú fer ekki hjá því, að verði farið að stofna marga skóla fyrir sjómennina, þá verður útbúnaður þeirra verri og kenslan ófullkomnari. Það kemur ekki annað til mála en að jafnauranæm samkoma og Alþingi færi að sjá eftir útgjöldunum, þegar til fjárveitinga kæmi handa öllum þessum skólum. Niðurstaðan yrði því sú, að þeim yrði skamtað úr hnefa, og eigi yrði fært að gera skólana eins vel úr garði eins og ef skólinn væri að eins einn. Afleiðingin af þessum mörgu skólum yrði þá verri mentun, minni trygging fyrir mannslífunum, og væri þá ekki til einkis barist. Jeg get ekki sjeð nauðsynina til að hafa skólana svona marga, og geri ekki ráð fyrir, að jeg sannfærist um það, við þær umræður, sem hjer fara á eftir. En jeg vil sem sagt styðja að því, að komið verði upp einum fullkomnum, stórum og vel útbúnum vjelstjóraskóla hjer í Reykjavík. Og jeg vil bæta því við í ræðulok, að þurfi endilega að hlaupa undir bagga með mönnum þeim, sem skólana eiga að sækja, þá mundi það borga sig betur fyrir landssjóð að greiða ferðakostnað þeirra og dvalarkostnað við skólann í Reykjavík heldur en að setja upp 3 aðra skóla, ef þeir ættu að verða sæmilega úr garði gerðir.