06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Bjarni Jónsson:

Jeg held, að það sje misskilningur hjá hv. flm. (M. Ó.), að fjárveitinganefndarmönnum hafi yfirsjest við atkvæðagreiðslu um þetta mál. Menn voru yfirleitt á móti þeim kostnaði, sem því fylgir að setja svo marga skóla á stofn. Hins vegar voru allir sammála um, að sjálfsagt væri að styðja aukna tilsögn við þann skóla, sem til er. Jeg vil nú bæta úr því, sem jeg sagði í öðru máli, honum (M. Ó.) tilheyrandi, með því, að jeg vil koma á sem fullkomnastri kenslu í þessu starfi, sem hjer um ræðir, í sambandi við slýrimannaskólann í Reykjavík. Hjer verði nóg húsrúm í Reykjavík og nægir kenslukraftar. Kenslan verður því fullkomnari, sem hún er á færri stöðum, og því minni kostnaður til að afla ýmsra tækja til verklegra æfinga og framkvæmda. Því að jeg geri ráð fyrir, að eigi yrði að eins tilsögn, heldur og verkleg kensla, í meðferð og góðri stjórn olíugangvjela. Menn læra þá það, sem að sjómenskunni lýtur, á sjómannaskólanum, en verklega meðferð vjelanna á vjelstjóraskólanum. Gæti þetta orðið ágætur skóli og gott væri, að mönnum gæfist kostur á að vera í siglingum, áður en þeir koma í skólann.

Um kostnaðinn fyrir þessa menn við að sækja skóla hingað til Reykjavíkur er það að segja, að svo er um alla, sem búa vilja sig undir eitthvert sjerstakt starf, að þeir verða að kosta nokkru til. Tel jeg, að þeir megi þakka fyrir, að landssjóður borgar kensluna, hvar sem skólinn er.

Jeg fyrir mitt leyti vil styðja að því af fremsta megni, að sem fullkomnust verði kensla í öllum greinum, er að þessu lúta og að stýrimannaskólanum og vjelstjóraskólanum verði steypt saman í eina heild, svo að hver sá, sem verða vill formaður, skipstjóri eða vjelstjóri, geti fengið hjer fulla þekkingu. En til undirbúnings þessu þarf að koma frumvarp, ekki frá Fiskifjelagi eða sjómönnum, heldur þeim, sem fróðir eru um kenslu og vel að sjer í þeim fræðum, sem hjer er um að ræða, nefnilega kennurum stýrimannaskólans.

Að þessu vil jeg styðja, en ekki taka til greina tafarlaust óskir einhverra manna um smáskóla víðs vegar á landinu.

Þetta hygg jeg að ráðið hafi atkvæðum vorum í fjárveitinganefnd.