21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2717)

79. mál, einkaréttur til þess að veiða lax úr sjó

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að segja, að mjer kom þetta frumvarp kynlega fyrir sjónir. Enginn vafi er á, að gengið er inn á hættulega braut, ef veitt verður einkaleyfi til að veiða lax inni á fjörðum og flóum kringum land alt um svona langan tíma. Og af því að sjerstaklega er ætlast til, að Faxaflói verði fótaskinn þessa manns, er mjer skylt að segja nokkur orð um málið.

Ekkert er nefnt, hvaða vjelar eða hvaða aðferðir maðurinn ætlar að nota, til þess að ná í laxinn. Hann gæti notað hin hættulegustu tæki. Enginn vafi er á, að þetta mundi draga mjög úr laxveiði í ám, því að ekki gengur sá lax upp í árnar, sem veiddur yrði í sjónum. Auk þess væri það mikið misrjetti, að þeir, sem búa við Faxaflóa, yrðu aðalfórnarlömb þessa einkarjettarmanns.

Viðvíkjandi þeim orðum hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að laxveiði sje naumast stunduð öðruvísi en sem „sport“, vil jeg geta þess, að það er algerlega rangt. Laxveiði er að minstu leyti stunduð til skemtunar hjer á landi. Uppi í Borgarfirði veit jeg til, að mörgum er hún góð tekjugrein. Bændur selja og oft veiðirjett á leigu, Englendingum eða öðrum, um ákveðinn tíma, og er það töluverð tekjugrein fyrir þá.

Einkennilegt finst mjer og, að þessum einkaleyfishafa á að gera hærra undir höfði en öllum öðrum laxveiðendum í landinu; hann á að fá að veiða á hvaða tíma sem er, og ekki lúta neinum lögum þar um. Þetta finst mjer því undarlegra, sem annað frv. liggur hjer fyrir deildinni, þess efnis, að takmarka laxveiði enn meir en nú á sjer stað, og sú ástæða færð fyrir, að laxinum sje að fækka. Þetta virðist víst fáum til þess fallið að bæta úr laxþurðinni.

Jeg vil mælast til þess, að deildin felli frv. nú þegar og hleypi því ekki til 2. umr. Jeg sje ekki ástæðu til, að það verði sett í nefnd. Að lokum vil jeg biðja Faxaflóa og þær jarðir, sem að honum liggja, undan þeirri blessun, er þetta frv. hefði að færa.