21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

79. mál, einkaréttur til þess að veiða lax úr sjó

Benedikt Sveinsson:

Jeg er á sama máli og hv. flm. (M. Ó.) um það, að rjett sje að taka vel Íslendingum, sem hverfa aftur frá öðrum löndum eða heimsálfum, til þess að leita sjer atvinnu á fósturjörðinni. Vjer höfum gert oflítið að því að hæna að oss landa vora, sem hafa komið heim með nýja verklega þekkingu og þann ásetning að setjast hjer að, til þess að vinna sjálfum sjer og ættjörðunni gagn. Það eru því miður mörg dæmi til, að slíkum mönnum hefir verið tekið svo fálega, að þeir hafa horfið hjeðan aftur. Það er fyrir löngu kominu tími til að hafa einhverja framkvæmd um það að liðsinna og leiðbeina þeim mönnum íslenskum, er leita hingað heim, til þess að taka sjer bólfestu. Það mundi geta komið að miklu gagni að stofna skrifstofu, er skyldi leiðbeina íslenskum innflytjendum frá Ameríku. Það væri skyldast Búnaðarfjelaginu og Fiskifjelaginu að gangast fyrir þvílíkri skrifstofustofnun, eða veita slíkum mönnum leiðbeiningar, hvort í sínum verkahring.

Þetta var rjettmætt í ræðu hv. flm. (M. Ó.). En þar fyrir get jeg ekki fallist á frv., er hann flytur, um að veita einum manni einkaleyfi til 10 ára til að veiða lax í einum stærsta flóa landsins. Og þetta leyfi er ekki einskorðað við neitt sjerstakt veiðarfæri eða sjerstaka veiðiaðferð, heldur er hjer að ræða um veiðirjett á laxi yfir höfuð. Það væri fallegt, ef öðrum væri svo veitt einkaleyfi til að veiða silung, þriðja ýsu, fjórða lúðu o. s. frv. En við þessu mætti búast. Hitt játa jeg, að nú er engin laxveiði á þessu svæði í sjó. Þar fyrir er ógerningur að veita manninum svona víðtækan rjett, sem hann svo gæti selt fjelagi, eða farið með á hvern þann hátt, er honum sýndist. Að vísu er einungis um heimildarlög ein að ræða, en ef fyrirsjáanlegt er, að þau komi aldrei til framkvæmda, væri það leikur einn að samþykkja þau. Annars verður að fara varlega í að veita einkaleyfi, því að ekki mun vanta eftir stríðið, þegar menn fara að koma með peninga sína hingað frá útlöndum, að eftir þeim verði sókst. Reynslan, sem fengin er af einkaleyfisgjöfum þingsins á síðustu árum, er og ekki svo vaxin, að hún sje til hvatningar í þessu efni.

Annars má benda á það, að leyfisbiðjanda er heimilt að veiða lax í sjó utan nótlaga, og þarf ekki lagaleyfi til þess. Það ætti honum að vera nóg. Frumvarpið er að því leyti óþarft. Hitt getur ekki komið til mála, að honum sje leyft að bægja öllum öðrum frá þessum rjetti, og í því sje jeg ekki, að annað liggi fyrir en að fella frv. þetta.